Skip to main content

admin

Borgfirsk örnefni

 Hér verður birtur ýmiskonar fróðleikur sem á einkum uppruna sinn í safnkosti héraðsskjalasafnsins og Ljósmyndasafns Austurlands. Það er ætlun okkar að reglulega verði nýjum fróðleiksmolum bætt hér inn. Miklar upplýsingar eru til í héraðsskjalasafninu um örnefni í Múlasýslum og er því við hæfi að fyrstu fróðleikamolarnir sem hér birtast séu um örnefni. Við byrjum á fróðleik um örnefni í Borgarfirði eystri sem Guðgeir Ingvarsson hefur tekið saman.

Lúpumóar eða lápumóar og heiðarlápan

Í örnefnaskrá Desjarmýrar í Borgarfirði eystra kemur fyrir örnefnið Lúpumóar, en þeir eru á svonefndum Hrafndal. Þeim er lýst svo í örnefnaskrá: „Láglendisræman frá Hrafnárfossi og inn með Hrafnánni, sem er afhallandi skriður vaxnar lyngi og mosagróðri heita Lúpumóar.“ Síðan kemur tilgáta skrásetjara, Vigfúsar Ingvars Sigurðssonar prests á Desjarmýri, um þetta örnefni eða skýringu á því: „En þeir hefðu eins vel mátt heita lápumóar, því að þar eru aðalstöðvar heiðarlápunnar (sendlingsins) á sumrin, sem verpir þar.“ Við lauslega athugun virðist hvorugt þessara orða lápa eða lúpa finnast í orðabók og ekki heldur orðið heiðarlápa. Hins vegar má nefna að í bók Bjarna Sæmundssonar, Fuglarnir, eru talin upp nokkur íslensk heiti á sendlingi. Þau eru: „sendlingur, selningur, fjölmóði (fornt), fjallafæla (á sumrin), fjörumús (Olavius), heiðarotta.“ Einnig er til sögnin að lápast sem merkir að fara laumulega, læðast. Tilgáta Vigfúsar Ingvars um að tengja megi örnefni þetta við sendling eða heiðarlápu, er því ekki ósennileg og ef til vill kannast einhverjir við nafnið heiðarlápa um sendling, a. m. k. virðist hann hafa þekkt það.


Sultarhólmi og Feigðareyri

Segja má að þessi örnefni séu heldur drungaleg, en þau koma fyrir í örnefnaskrá Desjarmýrar með hjáleigunni Setbergi. Setberg mun hafa verið í byggð til 1908, en þá var hjáleigan lögð undir Desjarmýri. Til að staðsetja  örnefnin sem nefnd eru hér að framan er ekki úr vegi að vitna í fyrrnefnda örnefnaskrá. Mörkum Setbergslands er þannig lýst í örnefnaskránni: „Innan við Myrká tekur við Setbergsland, er nær inn að Efra-Selshúsalæk, milli Setbergshnauss og Hvítuhnjúka að sunnan, en Krossár að vestan og Þverár að norðan.“ Þverá rennur skammt fyrir neðan bæjarstæðið á Setbergi og síðan út í Fjarðará allmiklu utar. Á bökkum Þverár eða eyrum hennar út og niður frá bænum voru örnefnin Sultarhólmi og Feigðareyri. Ekkert er vitað um ástæðu nafnsins Sultarhólmi, en Feigðareyrinni fylgir saga af ákveðnum atburði. Um það segir í örnefnaskrá, sem séra Ingvar Sigurðsson prestur á Desjarmýri skráði: „Feigðareyri hét áður í Þveránni rétt undan Litlaholtinu, og mun dregið af því að 10. maí 1871 drukknuðu þar tveir menn frá Setbergi, Stefán Kjartansson bóndi, (faðir Jóns, er síðar bjó á Gilsárvelli) og Sólon Björnsson, 13 ára unglingspiltur, er freistuðu að vaða Þverána í vatnavexti með heypoka á baki, en jakaburður var í ánni og var talið, að það mundi hafa valdið slysinu.“ Drukknunar þessara tveggja manna er getið í Prestsþjónustubók Desjarmýrar-prestakalls árið 1871, en þar segir að Stefán Kjartansson hafi verið 60 ára og Sólon 13 ára er þeir drukknuðu.


Gonta og gjót

Þrándarstaðir í Borgarfirði eystra voru fyrrum hjáleiga frá Desjarmýri. Bærinn stóð áður í allstórri hvilft upp undir Þrándarstaðafjalli, en var um 1938 fluttur niður á láglendið á bakka Hrafnár gegnt Desjarmýri og var nafninu þá breytt í Sólbakki. Í örnefnaskrá Þrándarstaða, sem skráð var af Bjarna Steinssyni er ólst upp á Þrándarstöðum, kemur fyrir sérkennilegt örnefni, Folaldsgonta. Þar segir m.a. um landamerki jarðarinnar að norðan og austan: „Fjarðará ræður mörkum að norðan að Grænutóft (á norðurbakka Fjarðarár). Úr Grænutóft bein lína um Folaldsgontu í Miðstríp í Grenjum.“ Folaldsgonta er allstór lág eða laut neðarlega í Þrándarstaðafjalli og er stöðvarhús lítillar vatnsaflssvirkunnar sem tilheyrir Sólbakka rétt við hana. Í Íslenskri orðabók frá 2002 er orðið gonta sagt merkja: „lægð, dæld, laut, skot inn í vegg, gil, gjóta, hola.“ Í sömu örnefnaskrá er einnig örnefnið Fagrahólsgonta. Ekki veit sá er þetta ritar hversu algengt orðið gonta er sem seinni liður í örnefnum, en trúlega er orðið gjóta eða gjót algengara í svipaðri eða sömu merkingu. Til dæmis eru í örnefnaskrá Gilsár í Breiðdal nefnd örnefnin Þorsteinsgjót, Lækjargjót og Langagjót, sem allar eru sagðar lyngvaxnar. Vera má einnig að notkun þessara orða sé eitthvað mismunandir eftir landssvæðum.


Galdra-Vilhjálmsgil

Þessa örnefnis er getið í örnefnaskrá Þrándarstaða í Borgarfirði. Gil þetta er skammt innan við túnið á Þrándarstöðum og eftir því fellur Bæjarlækur í Hrafná. Galdra-Vilhjálms er m.a. getið í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og er þar alllangur þáttur um hann og fjölkyngi hans. Hann bjó í Hvannstóði í Borgarfirði á 18. öld, en í Þjóðsögum Sigfúsar segir að hann hafi flutt að Þrándarstöðum nokkru fyrir aldamótin 1800. Hann átti m.a. í útistöðum við Guðmund Kolbeinsson hreppstjóra á Bakka í Borgarfirði og fleiri, en Vilhjálmur virðist hafa dáið með voveiflegum hætti heima á Þrándarstöðum, eftir frásögn Sigfúsar að dæma. Ekkert virðist hins vegar vera getið um Galdra-Vilhjálmsgil í þjóðsögunum.


Seyla

Örnefnið Seyla kemur m.a. fyrir í örnefnaskrá Hólalands í Borgarfirði eystra, sem skráð var af Eyjólfi Hannessyni hreppstjóra á Bakkagerði. Í skránni eru einnig örnefnin Seylugafl, Seyluhryggur, Seylukriki og Seylustafn. Þar segir einnig: „ Hann [þ. e. Bæjarlækur] fellur fyrst inn og niður Tjarnarbotna niður endilanga Seyluna, sker síðan Seyluhrygginn.“ Í Íslenskri orðabók, þriðju útgáfu frá 2002, er merking orðsins seyla sögð vera: „ deigla í jörð, kelda, mýri, fen, (votlend) graslaut.“ Einnig er til merkingin vík þar sem sandkvikur eru um fjöru. Í Skagafirði var heill hreppur kenndur við Seylu, Seyluhreppur vestan Héraðsvatna, sem nú hefur verið sameinaður fleiri hreppum. Þar er einnig bærinn Seyla skammt frá Varmahlíð. Væntanlega hefur hreppurinn sem og  bærinn Seyla dregið nafn sitt af votlendi eða mýrlendi  í nágrenni Héraðsvatna og Seylunafnið á Hólalandi er væntanlega einnig dregið af votlendi þar.


Kjóll og Kjólsvík

Ein af víkunum sunnan Borgarfjarðar eystra ber hið sérkennilega nafn Kjólsvík, en hún er næsta vík fyrir norðan Breiðuvík. Víkin ber nafn af Kjólnum, en í lýsingu á víkunum sunnan Borgarfjarðar,sem birtist í Árbók Ferðafélags Íslands 1957 segir: „Neðan undir Glettingi er einkennilegur klettur er nefnist Kjóll. Kjóll þýðir skip í fornu máli, og mun víkin draga nafn honum. Skammt neðan undir klettinum stendur bærinn Kjólsvík (í eyði síðan 1938) í lágum hvammi ... Er þetta eitt hið hrikalegasta bæjarstæði undir snarbröttum Glettingskolli, en kemur ekki að sök, því Kjóllinn ver bæinn skriðuhlaupum og snjóflóðum.“ Ennfremur segir í fyrrnefndri heimild: „Að norðanverðu fyllir hlaup dalinn alla leið út að sjó.“ Einnig segir þar: „Munnmæli herma að til forna hafi Kjólsvík verið slétt og fögur; stöðuvatn hafi þá verið uppi á Víðidalsfjalli, en lækur runnið úr því niður í víkina. Eina nótt hafi fjallið klofnað í tvennt um vatnið og hlaupið fram alla vík fram undir Hlass.“ Í bókinni Berghlaup eftir Ólaf Jónsson staðfestir hann að hlaup hafi einhvern tíma fallið úr Víðidalsfjalli‚ Háuhlaup og Láguhlaup, en dregur í efa þjóðsöguna um vatnið uppi á Víðidalsfjalli og að „ fjallið hafi sprungið fram um vatnið.“ Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Austurland vorið og sumarið 1776, segir í ferðabók sinni um Kjólsvík og nágrenni: „Brúnavík og Hvalvík eru sagðar grösugar, en Kjólsvík, sem mjög þótti grasgefin, breyttist mjög af ægilegu skriðuhlaupi fyrir þremur árum ...“ Ekki er því ósennilegt að Kjólsvík hafi verið fegurri, sléttlendari og gróðursælli áður en skriðuhlaupið féll, þótt þjóðsagan um vatnið eigi líklega ekki við rök að styðjast.

 

  • Ritað .