Skip to main content

admin

Héraðsskjalasafnið

Héraðsskjalasafn Austfirðinga var stofnað árið 1976 samkvæmt lögum um héraðsskjalasöfn frá 12. febrúar 1947. Safnið er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Þegar Héraðsskjalasafnið var stofnað voru eigendur þess Suður-Múlasýsla að 2/3 hlutum og Norður-Múlasýsla að 1/3. Þann 29. apríl 1992 breyttist eignaraðildin að safninu við það að stofnað var byggðasamlag um rekstur þess. Aðilar að byggðasamlaginu eru öll sveitarfélög í Múlasýslum sem nú eru átta talsins. Þau eru: Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga starfar nú samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn (nr. 77/2014) og reglugerð um héraðsskjalasöfn (nr. 283/1994) en bæði lögin og reglugerðina má nálgast hér á vef safnsins. Meginhlutverk safnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila, sveitarfélaga og stofnana þeirra, skrá þau og varðveita. Héraðsskjalasafnið tekur einnig við einkaskjölum, t.d. bréfasöfnum og dagbókum einstaklinga, skjölum félaga og fyrirtækja, og er mikið af þess konar efni í safninu. Að slíku efni er jafnan mikill fengur enda oft að finna í því upplýsingar um samfélög liðins tíma sem ekki eru í opinberum skjölum.

Þann 17. apríl árið 1996 flutti Héraðsskjalasafnið í nýtt húsnæði í Laufskógum 1 á Egilsstöðum. Þar er safnið til húsa í dag og deilir húsnæði með Minjasafni Austurlands og Bókasafni Héraðsbúa. Fyrir flutninginn í Safnahúsið var Héraðsskjalasafnið staðsett í Kaupvangi 2 á Egilsstöðum. Auk skjalasafnsins sjálfs heyra Ljósmyndasafn Austurlands og Bókasafn Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur undir Héraðsskjalasafnið. Ljósmyndasafnið er í eigu Héraðsskjalasafnsins, Minjasafns Austurlands og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, en það er hýst í Héraðsskjalasafninu og rekið undir hatti þess.

Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort heldur sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margskonar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu gögn sín.

Fyrsti safnvörður Héraðsskjalasafns Austfirðinga var Ármann Halldórsson, sem starfaði við safnið frá stofnun þess árið 1976 til 1. ágúst 1984. Þá tók Sigurður Óskar Pálsson við starfi safnvarðar og sinnti hann því til 1. júní 1996. Hrafnkell A. Jónsson tók þá við sem forstöðumaður héraðsskjalasafnsins og starfaði sem slíkur til 29. maí 2007 er hann lést langt fyrir aldur fram. Þann 1. janúar 2008 tók Hrafnkell Lárusson til starfa en núverandi forstöðumaður, Bára Stefánsdóttir, hóf störf 1. maí 2013.

Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga starfa þrír fastir starfsmenn í samtals 2 stöðugildum. Auk fastra starfsmanna hafa undanfarin verið við safnið starfsmenn sem sinnt hafa tímabundnum verkefnum. Má þar nefna skönnun ljósmynda.

Endurnýjaður stofnsamningur Héraðsskjalasafnsins tók gildi þann 1. desember 2014. Samkvæmt honum var fulltrúaráð safnsins lagt niður en hvert aðildarsveitarfélag skipar árlega sinn fulltrúa á aðalfund safnsins. Stjórnarmenn eru nú þrír í stað fimm áður. Stjórn skal framvegis skipa á fyrsta aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi eftir reglulegar sveitarstjórnarkosningar. Fjarðabyggð skipar einn stjórnarmann og annan til vara, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur og Borgarfjarðarhreppur skipa saman einn stjórnarmann og annan til vara og Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur skipa saman einn stjórnarmann og annan til vara. Stofnsamningurinn var uppfærður á aðalfundi safnsins í nóvember 2014 í samræmi við ný lög um opinber skjalasöfn. Breytingarnar tóku gildi 1. desember 2014.  

  • Ritað .