Skip to main content

admin

Ekki er gaman að guðspjöllunum

Eins og kom fram á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins þann 12 mars, þá fékk safnið myndarlegan styrk frá Landsbanka Íslands til að vinna að flokkun og frágangi Ljósmyndasafns Vikublaðsins Austra. Þessi styrkveiting beinir athyglinni að því umhverfi sem er að skapast hér á landi varðandi fjármögnun menningarstarfsemi.

 Í vaxandi mæli er atvinnulífið að koma að hinum ýmsu þáttum menningar til að styrkja þær og efla. Vissulega er þetta lofsvert og sýnir að sem betur fer ráða víða í fyrirtækjum aðilar sem skilja að maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, og hafa einnig skilning á því að sílækkandi skattheimta ríkis og sveitarfélaga af atvinnulífinu leggur þær skyldur á það að taka á sig ýmsa þá bagga sem áður þótti eðlilegt og sjálfsagt að ríki og sveitarfélög bæru.

En er þetta eðlileg þróun? Um það kunna að vera deildar meiningar. Ég hef ákveðnar efasemdir um að öllu leiti sé stefnt í rétta átt. Þótt eigendur Landsbanka Íslands hf. hafi sýnt svo ekki verður um villst að þeir skilja gildi menningar fyrir íslenskt samfélag til hlítar, (og þá hef ég fleiri dæmi í huga en styrkveitinguna til Héraðsskjalasafnsins) þá er ýmislegt sem bendir til að framganga Landsbankans sé frekar undantekning en regla. Ég óttast að ef of langt verður gengið í að vísa menningarstarfsemi á húsgang þar sem helsta hlutverk okkar sem veitum slíkum stofnunum forstöðu verði að ganga með betlistaf á milli góðbúanna til að eiga þess kost að fjármagna nauðsynlegustu verkefni, þá muni það enda með alsherjar uppdráttarsýki í hverskonar starfsemi sem ekki fullnægir ítrustu arðsemiskröfum hins heilaga markaðar.

Hluti af vanda þeirra sem standa að menningarstarfsemi og „markaðsetningu“ menningar er vandinn við að koma á framfæri því sem verið er að gera. Gallinn við margskonar starfsemi í menningargeiranum er að oft er um heldur jákvæðar fréttir að ræða, þar sem enginn er meiddur og ekki tilefni til að gera út á mannorð neins. Því virðist svo að stórhluti fjölmiðla, eða öllu heldur þeirra sem ráða þar efnisvali telji út í hött að segja frá því slíku, því eins og einhverntíma var sagt „ekki er gaman að guðspjöllunum ef enginn er í þeim bardaginn“ . Þannig fór t.d. um það þegar fulltrúi Landsbankans afhenti Ljósmyndasafni Austurlands fyrrnefndan styrk. Enginn fjölmiðill sá ástæðu til að mæta við þann atburð. Þeir sem frá því sögðu gerðu það í nokkrum styttingi ef frá er talið Ríkisútvarpið á Austurlandi. Eina blaðið sem gefið er út á Austurlandi hefur ekki séð ástæðu til að geta þessa , enda erfitt að tengja þetta stefnu þess blaðs að frétt sé ekki frétt nema hægt sé að sparka í einhvern í leiðinni.
Ef fjáröflun menningarmála færist í auknum mæli í það horf að stofnanir þurfi að afla sér fjár með„kostun“er óhjákvæmilegt að þetta viðhorf fjölmiðlanna breytist. Fari fyrirtæki í auknum mæli að styrkja menningarmál verður það á grundvelli þess að viðkomandi fyrirtæki séu að byggja upp ímynd, til að það takist verður að segja frá atburðunum.

 

  • Ritað .