Skip to main content

admin

Norræni skjaladagurinn 2022 - Hreinlæti

Í skjaladagspistli þessa árs koma við sögu Sveinn á Egilsstöðum, virðulegar lögfræðingsfrúr sem pissa utan túngarðs og fljúgandi salernispappír.

Norræni skjaladagurinn er haldinn árlega, annan laugardag í nóvember, og er tækifæri fyrir skjalasöfn víðsvegar á Norðurlöndum að kynna starfsemi sína og safnkost eins og þau óska. Héraðsskjalasöfn á Íslandi hafa undanfarin ár sameinast um þema fyrir þennan dag og í ár er þemað hreinlæti.

Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga kennir ýmissa grasa hvað varðar hreinlæti. Margt er að finna í opinberum skjölum sveitarfélaga og eins finnast ýmis skrif sem varða hreinlæti á fyrri tímum. Margt er þar skemmtilegt aflestrar og þó viðfangsefnið geti verið ólystugt, getur verið mjög forvitnilegt að kynna sér hvernig hreinlætismálum var fyrir komið fyrrum.

Í tilefni Norræna skjaladagsins, 12. nóvember 2022, viljum við bjóða ykkur að skyggnast aðeins í skjalasafn Sveins Jónssonar á Egilsstöðum (1893-1981). Sveinn lagði gjörva hönd á margt á langri ævi og eitt af því var gistihúsrekstur á Egilsstöðum. Eru til margar frásagnir af gestakomum þangað og þótti almennt ekki í kot vísað þegar gist var í Gistihúsinu á Egilsstöðum, sem enn er rekið og með meiri glæsibrag en nokkru sinni fyrr.

En allir þeir sem lagt hafa fyrir sig gisti- og veitingarekstur vita að alltaf er eitthvað um óánægða viðskiptavini. Okkur ber niður þar sem Sveini hefur borist bréf frá opinberum eftirlitsaðila með rekstri gististaða þar sem bornir eru undir hann tveir vitnisburðir um hreinlætisaðstöðu fyrir gesti á Egilsstöðum.

„…Skömmu síðar átti kona mín tal við þjónustustúlku á gistihúsinu og tjáði henni að hún þyrfti að komast á W.C. og spurði hvar það væri og tjáði stúlkan henni að eini staðurinn væri í fjósgangi bak við gistihúsið. Lagði konan mín svo af stað að leita að þessu, og varð þá í níða myrkri og rigningu að ganga fram hjá þremur bretatjöldum. Er hún kom að tjöldunum og eygði fjósganginn í dimmunni, heyrði hún svo ámátleg hljóð þaðan, að hún varð dauðhrædd og snéri við og bað mig að fylgja sér. Lögðum við svo af stað og gékk allt slysalaust unz komið var að innganginum í fjósið, en við innganginn var svo mikil for og bleyta að óhjákvæmilegt var fyrir mann að vaða í fæturna þótt maður væri í gönguskóm, svo ég tók það ráð að bera konuna mína yfir forina svo hún þyrfti ekki að vaða. Er inn í fjósganginn kom var þar níðamyrkur, því engin ljósglæta var þar. Varð ég því að þreifa mig þar áfram, en var svo heppinn að finna strax hurðina að kamrinum. Meðan á þessari leit stóð, heyrðum við fyrst og fremst hljóð, sem kýr vanalega gefa frá sér, en þar að auki voru einhver önnur mjög óhugguleg hljóð, er við heyrðum, sem yfirgnæfðu kúahljóðið, en hvaða hljóð þetta voru höfðum við ekki hugmynd um. Ég hefi aldrei verið talinn myrkfælinn, en í þetta skipti fór verulega um mig, og konan mín var dauðhrædd. Leist henni svo illa á þetta allt saman og eins það að þurfa að fara á kamar, sem hún gat ekki séð hvernig útlits var að innan, að hún gafst alveg upp, svo ekki var um annað að gera en fara út fyrir túngarðinn til að ganga erinda sinna, þótt hellirigning væri úti.

Daginn eftir fengum við að vita það, að í fyrrgreindu fjósi var líka svínastía og hefir það því sennilega verið ýlfrið í svínunum er við heyrðum í fjósganginum...“.

Gestur þessi, virðulegur lögfræðingur hjá Landsbanka Íslands, var sem sagt ekki sáttur við hreinlætisaðstöðuna, og það var hann ekki heldur „löggæslumaðurinn“ sem gerður var út til eftirlits í tilefni af fram komnum kvörtunum. Það er margt málblómið í skýrslu hans þar sem meðal annars segir þetta:

„…Þá skal enn tekið fram, að salernið er í fjósinu, þar sem á eina hönd eru kýr, aðra hestar og beint á móti inngangi svínastía. Salernið stendur yfir opinni safnþró. Í hvössum norðaustan vindi, eins og hann var í þetta skifti, þyrlar vindurinn ódaun úr forinni í vit þeirra, er salernið nota og kastar þvaginu upp og fram og svo þegar upp er staðið þeytist pappír sá er notaður er upp í gegnum setuopið á þann, sem girðir brækur sínar…“.

Nú verður að taka fram að Sveinn Jónsson virðist ekki hafa verið áhugalaus um úrbætur í hreinlætismálum. Í skjalsafni hans er að finna bréf frá því sumarið áður en þessar bréfasendingar bárust honum, þar sem verslunin Á. Einarsson og Funk tilkynnir honum að þeir eigi ekki vatnssalerni né handlaug til afgreiðslu, en rör geti þeir selt honum.

Sveinn virðist ekki endilega hafa tekið afskiptum yfirvalda og aðfinnslum sérlega ljúfmannlega. Að minnsta kosti má ráða af bréfi sem fylgir frá áður nefndum eftirlitsaðila að hann hafi móttekið fremur harðort andsvar frá Sveini. Það bréf er líklegt að megi finna í Þjóðskjalasafninu. En hvað sem í því bréfi stóð þá er nokkur sáttatónn í bréfi eftirlitsins. Enda fór svo á endanum að Sveinn hlaut styrk frá ríkinu til að byggja við gistihúsið og bæta við salernum. Bréf þess efnis er að finna í safninu, sem og yfirlýsingu þar sem sú kvöð er lögð á, gegn styrkveitingunni, að áfram verði rekið gistihús á Egilsstöðum. Svo er enn, 80 árum síðar, og því ekki hægt að segja annað en staðið hafi verið undir kvöðinni, sem reyndar er óundirrituð hér og því óvíst hvort formlega hafi verið frá henni gengið.

Lýkur svo hér þessari litlu sögu af hreinlæti á Egilsstöðum, en meðfylgjandi eru skjölin sem um er fjallað.

Mynd 1 Bréf HB1Mynd 2 Bréf BÓ 1 af 2Mynd 3 Bréf BÓ 2 af 2Mynd 4 Bréf BJ 1 af 3Mynd 5 Bréf BJ 2 af 3Mynd 6 Bréf BJ 3 af 3Mynd 7 Bréf ÁEFMynd 8 Bréf HB2 1 af 4Mynd 9 Bréf HB2 2 af 4Mynd 10 Bréf HB2 3 af 4Mynd 11 Bréf HB2 4 af 4Mynd 12 StyrkveitingMynd 13 Yfirlýsing

  • Ritað .