Skip to main content

admin

Örlítið meir um Túnisa þessa lands

Fyrir nokkru skrifaði ég pistil hér á síðuna um karlmannsnafnið Túnis en nú hefur orðið örlítið framhald á þeirri sögu.

Pistilinn skrifaði ég einkum sjálfum mér til skemmtunar en það gladdi mig að fá á því staðfestingu að einhver hefði lesið hann þegar ég varð samferða Vigfúsi Ingvari Ingvarssyni á aðalfund Sögufélags Austurlands á dögunum. Vigfús færði pistilinn í tal við mig og þá jafnframt hvort ég vissi af því að maður að nafni Túnis kæmi fyrir í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og að um hann væri þar vísa. Þetta vissi ég ekki en hef nú sótt mér meiri upplýsingar og langar af því tilefni að gera grein fyrir þessu betur hér í framhaldspistli.

Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar voru síðast gefnar út í 11 bindum á árunum 1982 til 1993. Í lokabindinu er ágæt nafnaskrá og út frá henni er hægt að sjá að þrívegis er í sögunum vísað til einhvers sem ber nafnið Túnis. Í tveimur tilfellum er um að ræða Túnis Jónsson sem fæddur var 1841 og dó 1912 og var síðastur til að bera Túnis-nafnið hérlendis. Er hann annars vegar nefndur sem einn margra heimildarmanna um sögur af Hafnarbræðrum, en hins vegar í tengslum við heimildarmann að annarri sögu í safninu.

Í þriðja tilfellinu er hins vegar maður að nafni Túnis viðfang einnar sögunnar, eða öllu heldur hluta úr kafla sem ber yfirskriftina Þáttur Húseyjar-Gvendar en Guðmundur þessi var Filippusson og bjó lengi í Húsey. „Hann var snemma gáfaður og raungóður og talandi skáld en ærið kankvís, klámskur og hrekkjóttur,“ segir um hann framarlega í þættinum og snúast sögur af honum einkum um þetta. Mun hann sem sagt hafa ort svohljóðandi vísu um mann að nafni Túnis sem var kaupamaður og sló Húseyjartún, en hann á að hafa lagt hug á konu sem hét Guðrún.

Túnis í túninu tíðum vel sló,
Túnis með krúnu sem ei þótti mjó,
Túnis vel búni með tólin ósljó,
Túnis Guðrúnu ei fékk þó.

Vísan þykir mér skemmtileg. Að minnsta kosti nógu skemmtileg til lifa í máli manna og komast í safn Sigfúsar, líklega meira en öld síðar, en Guðmundur Filippusson var fæddur 1742 og dó 1824. En hvar var hann, þessi slyngi sláttumaður að nafni Túnis? Þeirri spurningu er ekki hægt að svara með vissu, en það má leika sér að því að setja fram kenningu.

Í fyrri pistli nefndi ég að maður að nafni Túnis Þórðarson finnist skráður í sóknarmannatali fyrir Hofteigssókn á Jökuldal árið 1801. Hann er þá 78 ára að aldri og finnst ekki skráður annars í sóknarmannatöl fyrr eða síðar. Það á sér væntanlega þá skýringu að elstu sóknarmannatöl Hofteigs- og Kirkjubæjarsókna (og fleiri bækur) glötuðust í bruna á Kirkjubæ í Hróarstungu árið 1897. Þó ekkert verði um það fullyrt má leiða að því líkum að Túnis Þórðarson gæti hafa verið kaupamaður í Húsey einhvern tíma um ævina. Hann hefur verið um 20 árum eldri en Guðmundur og ekkert ómögulegt að sjá fyrir sér að hann hafi verið öflugur sláttumaður á fimmtugsaldri um 1765, en Guðmundur ríflega tvítugur, „kankvís, klámskur og hrekkjóttur,“ og látið vísuna flakka þá.

Annar mögulegur skotspónn Guðmundar gæti hafa verið Túnis Guðmundsson, sem fæddur var 1771 en dáinn 1825. Hann sést í sóknarmannatölum á Bakka í Desjarmýrarsókn í Borgarfirði árin 1789-1791 en móðir hans býr þá þar og er orðin ekkja. Næst er Túnisar getið í sóknarmannatölum Kirkjubæjarsóknar árið 1821 og er þá bóndi á Brekku í Hróarstungu, en eldri sóknarmannatöl þar eru glötuð. Í manntalinu 1801 er hann hins vegar sagður bóndi á Hallfreðarstöðum í sömu sveit. Það kemur til greina að einhvern tíma milli áranna 1791 og 1801 hafi hann verið kaupamaður, hugsanlega í Húsey og þar orðið fyrir kerskni Guðmundar. Einkum finnst mér þó mæla gegn því að hefði vísan verið um Túnis Guðmundsson væri það vitað, enda varð hann gildur bóndi í sveitinni og því líklegt að þess væri getið hefði hann verið sá sem um var ort.

Því verður seint svarað með vissu hver Túnis í Húsey var, en ég ætla með sjálfum mér að trúa því að það hafi verið Túnis Þórðarson. Hver veit nema einhversstaðar megi eitthvað meira um hann finna en eina færslu í sóknarmannatölum, og kannski eina vísu.

 

  • Ritað .