Skip to main content

admin

Tínt til um nafnið Túnis

Nú mætti halda að verið væri að færa út kvíarnar og fylgja eftir pistli um mannsnafn með pistli um landaheiti. En svo er ekki því þessi pistill er um karlmannsnafnið Túnis.

Ég lái engum að hvá yfir þessu. Nafnið er ekki á mannanafnaskrá og sjálfur hafði ég aldrei heyrt um eða séð það fyrr en ég var að grúska eitthvað í ættfræði og rakst á karlmann með þessu nafni. Forvitni mín var samstundis vakin og ég fór að skoða málið nánar. Þá kom það í ljós, sem réttlætir nokkuð skrif um þetta efni á vef Héraðsskjalasafns Austfirðinga, að nafnið var algengast hér á svæðinu. Á vefnum Íslendingabók er hægt að finna þrettán manns sem báru nafnið Túnis og þar af er nokkuð auðveldlega hægt að segja níu þeirra að austan, þeirra á meðal þann fyrsta til að bera nafnið samkvæmt því sem þar kemur fram.

Fyrstur til að bera nafnið Túnis hér á landi, ef marka má Íslendingabók, var Túnis Kolbeinsson sem var bóndi á Hvanná á Jökuldal. Var hann líklega fæddur um miðja sautjándu öld en látinn um 1703. Sáralítið er í Íslendingabók að finna um framætt hans, aðeins föðurinn sem einnig var bóndi á sama stað, Kolbeinn Þorsteinsson. Annars liggja upplýsingar um þá feðga lítt á lausu og engin leið að vita hvernig það kom til að drengurinn hlaut þetta óvenjulega nafn.

Næst skýtur nafnið upp kollinum um aldarfjórðungi síðar og þá á Vesturlandi, en í manntalinu 1703 er Túnis Eyjólfsson, fæddur 1678, skráður vinnumaður í Kjósinni. Enn líður nokkuð langur tími án þess að nafnið skjóti upp kollinum en í sóknarmannatali Hofteigssóknar á Jökuldal árið 1801 finnst fyrir Túnis Þórðarson, fæddur 1723, en hann er þar hvorki árin á undan né á eftir. Því er óljóst hvaðan sá maður kom eða hvar hann ól ævina. Hann er þó skráður „tökukarl“ og má því leiða líkum að því að hann sé fæddur í Jökuldalshreppi fyrst hann var vistaður þar orðinn gamall.

Flestir þeir sem báru nafnið Túnis eru hins vegar fæddir um eftir miðja 18. öld og fram undir miðja 19. öld. Tveir bræður í Borgarfirði fengu nafnið 1765 og 1773 (sá eldri dó ungur) og alnafni þeirra, Túnis Pétursson, er fæddur 1831 og virðist hafa alið manninn í Árnessýslu þar til hann lést árið 1909.

Aðrir þeir sem nafnið báru virðast hafa verið fyrir austan. Þrír þeirra voru afkomendur Túnisar á Hvanná, einn í þriðja lið og tveir í fimmta lið. Þess utan eru það tveir feðgar sem bera nafnið, Túnis Sigmundsson og Túnis Túnisson. Afi þess eldri virðist einnig hafa heitið Túnis en hann er óskráður í Íslendingabók og öðrum heimildum sem skoðaðar hafa verið. Þá finnst einnig í sóknarmannatali Hjaltastaðarsóknar árið 1900 Túnis Þórðarson, sem hvorki sér stað í slíku fyrr eða síðar en virðist hafa verið fæddur um 1873.

Enginn virðist hafa hlotið nafnið Túnis eftir 1846, þegar Túnis Oddsson fæðist en hann var léttadrengur í Sleðbrjótsseli árið 1860. Síðastur til að bera nafnið var Túnis Jónsson sem lést 1912 en hann var afkomandi Túnisar á Hvanná í fimmta lið. Þannig virðist hringnum lokað.

En hvaðan kemur þetta nafn? Mér var nokkur vandi á höndum við að finna út úr því. Fyrst leitaði ég fyrir mér varðandi það hvort nafnið á landinu Túnis ætti þarna einhvern hlut að máli. Eftir því sem ég kemst næst er það ævagamalt heiti þorps eða borgar sem enn í dag er höfuðborg ríkisins Túnis í Norður-Afríku. Ekki virðist alveg vera á hreinu hver merking nafnsins er en líklegasta skýringin er sú að þetta sé dregið af orði úr tungumáli Berba sem merkir náttstaður. Ein athyglisverð kaffistofukenning skaut upp kollinum hér í húsinu, en hún var sú hvort nafnið gæti eitthvað haft með Tyrkjaránið að gera, en eins og kunnugt er seldu þeir ræningjar sem þar voru að verki allmarga Íslendinga í ánauð í Norður-Afríku árið 1627. Þó kenningin sé skemmtileg gekk mér illa að finna nokkuð henni til stuðnings og það sem meira er, uppruni nafnsins er að líkindum allt annar.

Tilviljanakennd leit á netinu leiddi í ljós að Teunis er hollenskt karlmannsnafn og þar þekkist einnig önnur útgáfa þess, Theunis. Það er dregið af, eða virðist í upphafi hafa verið stytt útgáfa eða gælunafn fyrir þá sem hétu Antoníus. Það er því samstofna allmörgum nöfnum á ýmsum tungumálum, svo sem Anton, Antoine og Anthony svo einhver séu nefnd, og þá í raun sambærilegt við nöfn eins og Toni og Tony. Ég get ekki séð að nafnið hafi nokkurn tíma náð fótfestu í Skandinavíu, þó reyndar finnist einn Norðmaður með þessu nafni í manntalinu hér á landi árið 1890.

Út frá því sem hér að framan segir verður að ganga út frá því að nafnið hafi skotið rótum hér á landi fyrir einhverskonar evrópskar tengingar eða áhrif, líklegast hollensk, en nánast ómögulegt er að segja til um hvernig það hafi gerst.

Nafnið hljómar einkennilega í eyrum, en sennilega einkum fyrir það að við þekkjum það sem landaheiti. Karlmannsnöfn af þessu tagi eru ekki ýkja algeng en það má benda á að það er í raun alveg eins saman sett og nafnið Rúrik, það er með ú og i sem sérhljóða umkringda þremur samhljóðum. Það fer þó að mínu mati ekki vel á að beygja nafnið eins og Rúrik því þá sitjum við uppi með eignarfallsmyndina Túniss. Það má svo sem alveg en að mínu mati er nokkuð vinnandi til að sleppa við það.

Íslensk karlmannsnöfn sem eru fleiri en eitt atkvæði og enda á -is eru ekki mörg og hafa raunar flest bæst á mannanafnaskrá undanfarin 15 ár eða svo. Þetta eru nöfn á borð við Lúis, Francis/Franzis, Dennis, Elvis og Elis, sem er hið eina þeirra sem ekki er seinni tíma viðbót á skránna. Ef við notumst við sömu fallbeygingu og á Elis þá verður Túnis eins í nefnifalli, þolfalli og þágufalli en Túnisar í eignarfalli. Af þessu má sjá að nafnið fellur ágætlega að íslenskri tungu, tekur eignarfallsendingu og eins og rakið hefur verið er til staðar svolítil hefð fyrir því. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að taka upp nafnið Túnis að nýju hér á landi.

Uppfært 21.6.2022

Eftir ábendingu ritaði ég svolítinn framhaldspistil um efnið, sem má sjá með því að smella hér.

 

  • Ritað .