Skip to main content

admin

Út af eintómum hreppsómögum

Ég hef verið að hugsa svolítið um fátækt fólk og hreppsómaga að undanförnu og fyrir því er ástæða.

Fyrir skömmu síðan settum við nýja filmu í glugga á safninu og sýnir hún eina síðu úr gamalli hreppsbók Borgarfjarðarhrepps. Þetta kemur að mínu mati vel út, síðan er falleg og letrið skýrt og greinilegt. Það var eiginlega ekki fyrr en seinna sem ég fór að lesa textann og áttaði mig á því um hvað hann snerist.

Í textanum, sem ritaður er árið 1816, er verið að gera grein fyrir ráðstöfun hreppsómaga. Hvaða bændur tóku við hverjum úr þeim hópi sem ekki gátu séð sjálfu sér farborða og hvað var greitt fyrir. Nöfn og fjárhæðir, en mikil saga að baki hverri og einni færslu. Saga sem aldrei verður hægt að segja til fulls.

Ég neita því ekki að það fór aðeins um mig þegar ég áttaði mig á þessu. Samfélag okkar í dag er sem betur fer orðið meðvitað um að það er ekki sama hvernig við fjöllum um þau sem minna mega sín. Það flaug að mér hvort að þetta gæti þótt ósmekklegt, að taka nöfn þessa fólks og birta í yfirstærð úti í glugga. Jafnvel þótt liðin séu rúm 200 ár þá gæti þetta fólk átt afkomendur sem gæti sárnað.

Einn af mínum fyrstu dögum á safninu datt hér inn úr dyrunum kona sunnan úr Reykjavík. Erindið var að leita eftir því hvort hér væri að finna einhverjar upplýsingar um fjölskyldu hennar, ömmu hennar og afa og fjölskyldu þeirra. Svona aðstoðarbeiðnir og leit er töluverður hluti af starfinu hér á Héraðsskjalasafninu, og okkur er ljúft og skylt að aðstoða eftir föngum. Í þessu tilfelli var ekki að sjá að neitt væri að finna í skjölum hjá okkur en við áttum gott spjall og við leit á vefnum kom ýmislegt í ljós. Sérþekking okkar hér á safninu snýr ekki bara að safnkostinum sjálfum, heldur einnig að því að nýta sér þau skjöl sem orðin eru aðgengileg á vef, auk þess sem við getum oft aðstoðað fólk við að setja upplýsingar í samhengi, einfaldlega vegna betri staðþekkingar hér fyrir austan.

Þessi kona var að vinna að undirbúningi ættarmóts og ætlaði sér að taka saman svolitla ættarsögu. Eitthvað svo fólkið hennar gæti vitað meira um hvaðan þau koma. Niðurstaðan af leit okkar varð meðal annars sú, sem hún raunar vissi fyrir, að þetta fólk var alla ævi blásnautt. Þau koma við sögu um nokkurra ára skeið í gögnum héðan af Austurlandi, bjuggu í þurrabúð, fjölskyldufaðirinn sótti sjóinn þar til hann lést skyndilega á besta aldri. Börnin koma og fara, þau flytja bæ af bæ, ár eftir ár, alltaf basl.

„Hvað ætli fjölskyldan segi ef ég skrifa bara að við séum öll út af eintómum hreppsómögum,“ sagði konan og glotti skelmislega, um leið og hún kvaddi. Hún hafði góðan húmor fyrir þessu og þetta kom henni ekkert á óvart.

Ég hef hugsað svolítið um þetta undanfarna daga, hreppsómagana, fátæka fólkið og fjölskyldusögurnar allar. Niðurstaða mín er sú að það sé eiginlega fátt betra en að vera kominn af fátæku fólki. Það að þú ert hér í dag þýðir að forfeður þínir stóðu sig. Þau áttu kannski ekki auðvelda ævi sjálf, en þeim tókst að koma börnum sínum til manns, kynslóð eftir kynslóð, og koma þeim í stöðu til þess að bæta lífskjör sín.

Ef þú kíkir í glugga Safnahússins á Egilsstöðum og þekkir einhvern forföður eða formóður á lista yfir hreppsómaga í Borgarfjarðarhreppi árið 1816, skaltu fyllast stolti og gleði yfir því að vera afkomandi þeirra. Þeirra líf og starf var sannarlega þess virði, og ekki síður mikilvægt en þeirra presta og sýslumanna sem oftar hefur verið hampað um dagana.

 

  • Ritað .