Skip to main content

admin

Molar um nafnið Malen

Hér áður fyrr voru ákveðin mannanöfn algengari í sumum landshlutum en öðrum. Þetta hefur breyst með auknum hreyfanleika fólks um landið en þó eimir eftir af þessu.

Það má með nokkrum rökum segja að kvenmannsnafnið Malen tengist Austurlandi umfram aðra landshluta og lengi vel var það betur þekkt hér á svæðinu en víðast annarsstaðar. Áður en lengra er haldið í þessum pistli verður þó að byrja á að gera grein fyrir því að til eru nokkrir rithættir eða útfærslur af nafninu, svo sem Malen, Malena, Malene, Malin og Malín, sem er raunar algengast. Þá vill það bregða við að nafn sumra kvenna er skrifað á mismunandi hátt í ólíkum heimildum svo erfitt getur verið að átta sig á því hvaða nafn er í raun og veru um að ræða.

Eftir því sem næst verður komist var Malen(a) Jensdóttir Örum (1786-1824) fyrst til að bera nafnið hér á landi (þó ein heimild tilgreini reyndar að eldri systir hennar og alnafna hafi fæðst 1783 en sú mun hafa dáið ung). Faðir hennar var Jens Örum, kaupmaður af dönsku bergi brotinn, og móðirin Sigríður Jónsdóttir, systir Geirs Vídalín biskups. Foreldrar þeirra voru Jón Vídalín, prestur í Laufási í Eyjafirði, og Sigríður Magnúsdóttir sem var systir Skúla fógeta. Vegna þess að Malenar-nafnið þekkist ekki hér á landi fyrir þennan tíma, og vegna uppruna föðurins, virðist óhætt að reikna með því að nafnið hafi komið erlendis frá úr föðurættinni. Malena, eða Malen eins og hún er nefnd í Ættum Austfirðinga og víðar, giftist Páli Guðmundssyni sýslumanni í N-Múlasýslu og bjuggu þau á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu.

Önnur til að bera nafnið hérlendis var Malen(a) Sigurðardóttir (1830-1903). Faðir hennar var Sigurður Guðmundsson stúdent á Eyjólfsstöðum á Völlum, bróðir Páls sýslumanns. Verður að telja líklegt að hann hafi ákveðið að skíra stúlkuna eftir látinni mágkonu sinni. Síðan þá hafa allmargar konur af þessari sömu ætt borið Malenar-nafnið og þess má geta til gamans að fjórar þeirra báru einnig nafnið Pálína, svo meðvitað eða ómeðvitað var minningu þeirra hjóna á Hallfreðarstöðum, Malenar og Páls, haldið vel á lofti.

Það er rétt og sjálfsagt að gera grein fyrir því að ein þessara kvenna var amma þess sem þennan pistil ritar, Pálína Malen Guttormsdóttir (1903-1991), sem varð höfundi tilefni til þess að grúska eftir upplýsingum um nafnið. Og af því að hér í upphafi var talað um nöfn sem tengdust einkum einum landshluta þá er karlmannsnafnið Guttormur sannarlega líka eitt þeirra, en lengst af var það mjög tengt Austurlandi og kannski verður það efni í annan pistil síðar.

Malenar landsins telja nú nokkra tugi og geta vitaskuld ekki allar rakið ættir sínar austur á land. Annar uppruni nafnsins hérlendis virðist liggja norður í Eyjafirði þar sem fjórar konur, fæddar á árunum 1850-1890, fengu nafnið og líklegt er að einhverjir afkomendur þeirra beri það í dag, auk þess sem fleiri Malenar hafa áreiðanlega flust hingað til lands í gegnum tíðina.

 

  • Ritað .