Skip to main content

admin

Kort um Guðgeir Ingvarsson

Áramótakort sem var gefið út í desember 2020 var tileinkað Guðgeiri Ingvarssyni fyrrverandi starfsmanni Héraðsskjalasafnsins.

Guðgeir Ingvarsson (1946-2012)

gudgeir ingvarsson

Sigurður Guðgeir Ingvarsson fæddist 28. febrúar 1946 á Desjarmýri í Borgarfirði eystra. Hann var sonur hjónanna Ingvars Júlíusar Ingvarssonar og Helgu Björnsdóttur. Guðgeir ólst upp við hefðbundin sveitastörf, elstur í hópi sjö systkina.

Guðgeir stundaði nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og þaðan lá leiðin norður í land þar sem hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1966. Í framhaldinu stundaði hann enskunám við Háskóla Íslands, fór næst í Kennaraskólann og lauk þaðan kennaraprófi vorið 1968. Árið 1971 hélt Guðgeir til Danmerkur og hóf nám við Den Sociale Højskole í Óðinsvéum og útskrifaðist þaðan sem félagsráðgjafi 1974. Kona hans var Anne Kampp leirlistarkona og þeirra börn eru Ingvar Smári, Guðný Elísa og Elín Helga.

Heimkominn frá Danmörku vann Guðgeir næstu árin í fagi sínu í Reykjavík og á Akranesi en tók við nýstofnuðu starfi félagsmálastjóra á Egilsstöðum 1986 og gegndi því til ársins 1999. Þá tóku við störf við kennslu og blaðamennsku í nokkur ár þar til hann réðist til Héraðsskjalasafns Austfirðinga þar sem hann starfaði til æviloka. Af þeim starfsvettvangi hafði hann nokkra reynslu þar sem hann vann hjá Sigurði Óskari Pálssyni skjalaverði í hlutastarfi 1992 þegar safnið var í Gömlu símstöðinni og tók að sér ýmis skráningarverkefni fyrir Héraðsskjalasafnið í framhaldi af því.

Í tíð Hrafnkels A. Jónssonar héraðsskjalavarðar hófst rafræn skráning á skjölum safnsins. Þar var Guðgeir réttur maður á réttum stað, hvort sem skrá þurfti skjöl eða ljósmyndir.

Guðgeir hafði ánægju af starfi sínu og vann af alúð þau verkefni sem honum voru falin. Hann var ljúfur og viðkunnanlegur í umgengni og nutu bæði gestir og samstarfsfólk þess. Í skjalasafninu var hann sannarlega á réttri hillu og margir kunnu vel að meta greiðvikni hans og þekkingu. Það sýnir vinnulag Guðgeirs að þeir sem höfðu notið aðstoðar hans á safninu leituðu gjarnan til hans aftur og spurðu þá sérstaklega eftir honum þó aðrir væru til svara. Hann tók einnig að sér ýmis sérverkefni fyrir safnið.

Guðgeir var hneigður til fræðimennsku og leysti verkefni af þeim toga, af þeirri nákvæmni og samviskusemi sem honum var eðlislæg. Hann var einnig gæddur góðum skipulagshæfileikum. Lengi vel hafði starfsmenn safnsins óað við óreiðunni í lítilli kompu sem hýsti lesvélar, kirkjubækur, manntöl og mikrofilmur af þeim. Einn daginn hóf Guðgeir tiltekt og að nokkrum tíma liðnum var rýmið orðið að snyrtilegri geymslu sem hreinasta unun var að umgangast. Sömu umhyggjuna hlutu skjöl og tímarit sem varðveitt eru í geymslu safnsins og nákvæmni hans við skráningu kemur sér vel við leit að skjölum.

Síðari árin í starfi átti Guðgeir við vanheilsu að stríða en hafði löngun til að vinna til sjötugs. Þegar hann varð 66 ára ákvað hann þó að minnka við sig vinnu og byrja að taka lífeyri. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á bókum og ekki síður á flokkun þeirra. Aukinn frítíma hugðist hann nota til að sinna áhugamálunum sínum; bóklestri, fræðimennsku og ritstörfum. Sá tími reyndist endasleppur þar sem andlát hans bar óvænt að þann 14. febrúar 2012. Honum vannst ekki tími til að sinna ritstörfum og fræðagrúski í eigin þágu og skipa sér þannig sess með austfirskum rithöfundum og fræðaþulum en góðra verka hans njóta notendur og starfsmenn safnsins dag hvern.

 

  • Ritað .