Stjórnarfundur og Dagar myrkurs
Síðastliðinn þriðjudag, 28. október, var haldinn fundur í stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Átti fundurinn upphaflega að vera fimmtudaginn 23. október en var þá frestað sökum slæms veðurútlits. Aðalefni fundarins voru drög að fjárhagsáætlun ársins 2009. Ljóst er að sú óvissa sem er nú í efnahagslífi landsins gerir fjárhagsáætlunargerðina mun erfiðari en ella. Almennt má segja að í þeim drögum af fjárhagsáætlun sem nú er í vinnslu sé gætt aðhalds í rekstri safnsins án þess að ráðist sé í stórfelldan niðurskurð.
---
Dagar myrkurs hefjast í næstu viku og standa frá 10.-16. nóvember. Að vanda taka söfnin í safnahúsinu þátt í Dögum myrkurs.
Héraðsskjalasafnið þjófstartar, ef svo má segja, en næstkomandi laugardag, 8. nóvember, verður safnið opið frá kl. 13-16. Þann dag er Norræni skjaladagurinn og verður tækifærið notað til að sýna valin skjöl og myndir sem eru í varðveislu safnsins auk þess sem starfsemi þess verður kynnt.
Síðdegis þriðjudaginn 11. nóvember verður svo blásið til uppboðs í safnahúsinu. Það er Minjasafn Austurlands sem stendur fyrir þeim viðburði. Uppboðið markar endi á sumarsýningu minjasafnsins sem nefnist ÓlíKINDi, en hún hverfist, í víðu samhengi, um íslensku sauðkindina og samfélagslegt hlutverk hennar. Á uppboðinu verður hægt að bjóða í ýmsa muni sem hafa verið á sýningunni, þ.á m. myndir, gærur og ýmsa smámuni, en auk þess býðst fólki að koma með muni til að bjóða upp. Uppboðið hefst kl. 17.30.