Myndasýningar á Borgarfirði og í Fljótsdal
Sýningarferðin Austfirsk menning í ljósmyndum heldur áfram, en markmið verkefnisins er að fara með sérsniðnar myndasýningar til byggðarlaga á starfssvæði safnsins. Næstkomandi miðvikudagskvöld (10. október ) verður sýning í Fjarðarborg á Borgarfirði og kvöldið eftir (11. október) verður sýning í Végarði í Fljótsdal. Báðar sýningarnar hefjast kl. 20:00.
Aðalefni sýninganna eru ljósmyndir (í powerpoint-fromi sem varpað verður á tjald) frá viðkomandi byggðarlagi og af fólki þaðan. Auk þess verður á dagskránni stutt kynning á starfsemi Héraðsskjalasafnsins og sýning myndskeiðum úr safni Austfirska sjónvarpsfélagsins og útibús Stöðvar 2 á Austurlandi. Þau myndskeið eru frá 9. og 10. áratug síðustu aldar og gefa áhugavert þversnið af atvinnu- og mannlífi á Austurlandi á þeim tíma. Myndefnið sem sýnt verður – bæði ljósmyndir og lifandi myndir – kemur úr safnkosti Héraðsskjalasafnsins og Ljósmyndasafns Austurlands. Dagskráin verður u.þ.b. ein klukkustund að lengd og munu undirritaður og Arndís Þorvaldsdóttir hafa umsjón með henni.
Borgfirðingar eru hvattir til að mæta á sýninguna í Fjarðarborg, miðvikudagskvöldið 10. október kl. 20:00. Fljótsdælingar eru að sama skapi hvattir til að mæta fimmtudagskvöldið 11. október í Végarði. Sú sýning hefst einnig kl. 20:00.
Aðgangur er ókeypis.
Hrafnkell Lárusson
forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga