Safnanótt í Safnahúsinu
Héraðshátíðin Ormsteiti á Fljótsdalshéraði hefst næstkomandi föstudag, 14. ágúst, og stendur í rúma viku. Sú hefð hefur skapast að einn dag Ormsteitis er safnastarf meira áberandi en annars og taka söfnin í Safnahúsinu á Egilsstöðum þátt líkt og þau hafa gert undanfarin ár. Safnadagur Ormsteitis þetta árið er laugardagurinn 15. ágúst. Að þessu sinni verður dagskráin í Safnahúsinu að kvöldi til og hefst hún kl. 21:00.
Dagskrá kvöldsins er tvískipt. Í fyrri hlutanum verða fluttar frásagnir, sögur og ljóð sem tengjast ást og rómantík en þessi hluti dagskrárinnar kallast á við þema sumarsýningar Minjasafns Austurlands sem ber heitið „Ást í 100 ár“.
Síðari hlutinn er myndasýning á tjaldi og er gert ráð fyrir að hún hefjist um kl. 22:00. Þar mun Arndís Þorvaldsdóttir sýna myndir úr safni Ljósmyndasafns Austurlands og segja frá efni þeirra. Þema sýningarinnar verður söngur og leiklist á Fljótdalshéraði. Meginhluti myndanna er frá árunum 1970-2000, en sú elsta er frá árinu 1959.
Samkvæmt venju er aðgangur ókeypis og allir velkomnir.