Skip to main content

admin

Héraðsskjalasafn Austfirðinga 40 ára

Jólakort Héraðsskjalasafnsins á árinu 2016 var tileinkað 40 ára afmæli safnsins sem hefur gefið út kort með sögulegum fróðleik óslitið frá árinu 1979 að undanskildu árinu 1995.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga var stofnað árið 1976 samkvæmt lögum um héraðsskjalasöfn frá 1947. Stofnendur þess og eigendur voru Suður- og Norður-Múlasýslýslur. Safnið starfar nú samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er rekið sem byggðasamlag í eigu átta sveitarfélaga á Austurlandi.

Hugmyndin um stofnun héraðsskjalasafns mun fyrst hafa komið fram á Fjórðungsþingi árið 1949. Árið 1971 samþykkti sýslunefnd Suður-Múlasýslu að minnast ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar með stofnun héraðsskjalasafns og skyldi leitað samstarfs við sveitarfélög í Múlaþingi. Árið 1972 gerðist Norður-Múlasýsla aðili að væntanlegu safni, en kaupstaðirnir Neskaupstaður og Seyðisfjörður afþökkuðu þátttöku, en komu seinna að rekstri safnsins. Næstu tvö árin gerðist fátt annað en að sýslurnar festu kaup á húsi fyrir safnið. Var það gamla Póst- og símstöðvarhúsið við Kaupvang á Egilsstöðum. Snemma árs 1974 fékk væntanlegt safn að gjöf bókasafn Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur og Halldórs Ásgrímssonar eða um 5000 bindi bóka og tímarita. Bókagjöfin kom skriði á framkvæmdir og var Héraðsskjalasafn Austfirðinga stofnað á áttræðis afmæli Halldórs Ásgrímssonar þann 17. apríl 1976.Fyrsti formaður stjórnar var Jón Kristjánsson og Ármann Halldórsson var ráðinn skjalavörður. Hans beið það verkefni að koma fyrir bókum og skjölum, innrétta lestrarsal og hefja skráningu bóka og skjala. Safnið var formlega opnað almenningi haustið 1977.

Sigurður Óskar Pálsson tók við af Ármanni sem forstöðumaður árið 1984. 17. apríl árið 1996 flutti Héraðsskjalasafnið í Safnahúsið, nýtt húsnæði að Laufskógum 1 á Egilsstöðum. Sama ár tók Hrafnkell A. Jónsson við starfi héraðsskjalavarðar en hann lést langt fyrir aldur fram í maí 2007 og tók Hrafnkell Lárusson við starfi hans 2008. Núverandi forstöðumaður er Bára Stefánsdóttir. Í Héraðsskjalasafninu starfa þrír fastir starfsmenn í samtals tveimur stöðugildum.

Meginhlutverk Héraðsskjalasafnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila, sveitarfélaga og stofnana þeirra, skrá þau og varðveita. Einnig er tekið við einkaskjölum t.d. bréfasöfnum, ljósmyndum og dagbókum einstaklinga og skjölum félaga og fyrirtækja. Að slíku efni er jafnan mikill fengur enda oft að finna í því upplýsingar um samfélög liðins tíma sem ekki eru í opinberum skjölum. Bókasafnið hefur að geyma mikinn fróðleik um ættfræði, þjóðfræði og sögu Austurlands sem hefur í gegnum árin auðveldað starfsfólki og safngestum vinnu við heimildaleit og skráningu. Ljósmyndasafn Austurlands, sem er rekið af Héraðsskjalasafni, Minjasafns Austurlands og SSA, er hýst í Héraðsskjalasafninu.

Hægt er að lesa nánar um upphafsár safnsins í grein eftir Hrafnkel Lárusson en ítarlegri grein verður birt í byggðasöguritinu Múlaþingi.

[widgetkit id="9" name="Jólakort safnsins"]