Jólakortaútgáfa Héraðsskjalasafnsins
Ný myndasýning hefur verið sett inn á vef Héraðsskjalasafnsins í tilefni komandi jólahátíðar. Að þessu sinni var valið að sýna jólakortaútgáfu safnsins sem hefur verið nær samfelld frá árinu 1979. Að venju var umsjón með sýningunni og gerð myndatexta í höndum Arndísar Þorvaldsdóttur.
Árið 1979 hóf Héraðsskjalasafn Austfirðinga að gefa út jólakort með myndum og kynningu á Austfirðingum sem á einhvern hátt höfðu átt þátt í að varðveita og miðla austfirskum menningararfi eða auðga menningarlíf í fjórðungnum. Fyrsta kortið prýddi mynd Ríkarðs Jónssonar af Sigfúsi Sigfússyni, þjóðsagnaritara og einnig stutt æviágrip Sigfúsar. Síðan hefur gerð slíks jólakorts verið árviss, utan að árið 1995 féll útgáfa niður vegna veikinda skjalavarðar.
Á jólasýningunni í ár gefur að líta útgáfuna í heild (til og með árinu 2011). Birtar eru myndir af forsíðu kortanna og fylgir útdráttur úr texta hvers korts með sem myndatexti. Alls er um að ræða 30 kort með mannamyndum og æviágripi en í tvígang hafa munir eða skjöl, sem safnið varðveitir, prýtt kortin. Annars vegar mynd af rithönd Jóns Sigurðssonar fræðimanns í Njarðvík árið 1991 og hins vegar Hofteigsbiblía árið 2001.