Skip to main content

admin

Héraðsskjalasafnið ekki með í Ormsteiti

Í dag [8. ágúst] birtist hér á heimasíðunni önnur vefsýning ársins og nefnist hún Sumarsýning 2012 – um hana má fræðast nánar í tilkynningunni hér til hliðar. Við hæfi þótti að setja þessa sýningu á vefinn nú í aðdraganda héraðshátíðarinnar Ormsteitis, en Héraðsskjalasafn Austfirðinga hefur á undanförnum árum tekið þátt í dagskrá þess, þá jafnan í samstarfi við hin söfnin í Safnahúsinu.

Í ár tekur Héraðsskjalasafnið hins vegar ekki þátt í Ormsteiti. Orsakast það af samdrætti í rekstri safnsins sem leitt hefur til þess að okkur er enn erfiðara um vik en áður að sinna verkefnum utan fastrar daglegrar starfsemi. Af sömu ástæðum treystir safnið sér ekki til að taka þátt í Atvinnulífssýningunni sem fyrirhuguð er hér á Egilsstöðum dagana 18. og 19. ágúst nk. Það er vitanlega miður að svona sé komið enda mikilvægt fyrir stofnun sem sinnir almannaþjónustu að vera sýnileg, en þegar samdráttar í rekstri er tekinn að leiða til þess að starfshlutföll skerðast þá er erfitt við að eiga.