Skip to main content

admin

Menningarverðlaun SSA 2022

Guðmundur Sveinsson, héraðsskjalavörður í Neskaupstað, hlaut í dag Menningarverðlaun SSA en þau voru veitt á haustþingi sambandsins á Breiðdalsvík.

Guðmundur hefur nánast alla ævi verið vakinn og sofinn í söfnun heimilda um sögu Austurlands, og þá ekki síst um sögu sjávarútvegs og skipasmíða í fjórðungnum. Það var á grundvelli umfangsmikillar söfnunar hans á heimildum sem ákveðið var að setja á fót Skjala- og myndasafn Norðfjarðar árið 1978. Guðmundur hefur frá upphafi og til þessa dags veitt safninu forstöðu og er það annað af tveimur héraðsskjalasöfnum á Austurlandi.

Hann hefur því um áratuga skeið verið náinn samstarfsmaður og vinur Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Þessi verðskuldaða viðurkenning er því safninu, sem og öllum opinberum skjalasöfnum á landinu, mikið fagnaðarefni og við óskum Guðmundi hjartanlega til hamingju með hana.

Með því að smella hér má lesa umfjöllun Austurfréttar um veitingu verðlaunanna.

Guðmundi til heiðurs birtum við hér mynd af honum úr Ljósmyndasafni Austurlands, frá því hann tók þátt í endurbyggingu gamla vitans á Dalatanga. Guðmundur er lengst til hægri á myndinni en aðrir á myndinni eru Erlendur Magnússon, Guðrún Kristinsdóttir, Halldór Sigurðsson og Geir Hólm.

70 7087b web