Skip to main content

admin

Gömul ljósmynd af hestum á Seyðisfirði

Fyrir nokkru síðan barst safninu ábending um að til sölu væri gegnum e-bay, ljósmynd frá Seyðisfirði sem í fljótu bragði væri ekki að finna á ljósmyndasöfnum hér á landi.

Eftir að hafa skoðað málið var ákveðið að festa kaup á henni, en seljandinn sérhæfir sig í sölu gamalla ljósmynda. Myndin er fyrir ýmissa hluta sakir áhugaverð, en hún sýnir hrossahóp með reiðtygjum við hús á Seyðisfirði sem reist var árið 1887 undir starfsemi Pöntunarfélags Fljótsdalshéraðs á svonefndum Svendsengrunni við Hafnargötu, milli Þórshamars og Skipasmíðastöðvarinnar. Húsið stóð þar til ársins 1907 að það var flutt og breytt allmikið. Það stendur nú við Hafnargötu 10 og er jafnan kallað Múli. Frá þessu segir í Húsasögu Seyðisfjarðar.

Myndin er lituð og á glerplötu, þeirrar gerðar sem á ensku nefnist „lantern slides“. Þetta voru nokkurskonar forverar síðari tíma slides-mynda og var varpað á sýningartjald. Á myndinni kemur fram að hún tilheyri American Museum of Natural History en safnið lét útbúa myndir af þessu tagi til að lána út í skóla sem kennsluefni en einnig fyrir opinbera fyrirlestra sem haldnir voru í safninu og voru geysivinsælir á tímabili. Safnið hefur gert hluta af þessum glerplötumyndum aðgengilegar á vef sínum, en þessa mynd er ekki þar að finna né neina sem sýnilega virðist geta tilheyrt sömu sýningu.

Myndin er merkt „Ponies - Seydisfiord, Iceland“, en einnig með númerinu 3045 og (49.1). Þetta getur bent til þess að megintilgangurinn sé að sýna íslenska hestinn, en það er þó engan veginn víst. Nokkuð virðist um að myndir af þessu tagi sýni könnunarleiðangra um heimskautasvæði og gæti myndin verið hluti af slíkri sýningu en ekki er hægt að fullyrða neitt um það.

Tilurð myndarinnar, hver tók hana og hvenær og hvers vegna þessi glerplata var gerð er okkur enn sem komið er nokkur ráðgáta. Þó má slá föstu að það sé einhvern tíma á árunum 1887-1907. Það væri gaman að fá að heyra kenningar um uppruna myndarinnar eða frekari upplýsingar ef einhver telur sig vita meira en við.