Ljúfir tónar langspilsins
Vel var mætt í Hallormsstaðaskóla í gær þegar fram fór annar fyrirlestur vetrarins í fyrirlestraröðinni Nýjustu fræði og vísindi - á Austurlandi.
Að þessu sinni var umfjöllunarefnið langspilið, sem margir þekkja af afspurn en færri hafa séð eða heyrt með eigin eyrum.
Yfirskrift fyrirlestrarins var „Fallega syngur langspilið“ - Baðstofan og tónlistararfur í nýju samhengi. Fyrirlesari var Eyjólfur Eyjólfsson, tónlistarmaður og þjóðfræðingur, en hann hafði vikuna á undan verið gestakennari við skólann. Í lok fyrirlestrarins lék hann, ásamt nemendum Hallormsstaðaskóla, á langspil og handgerða flautu en Eyjólfur hefur meðal annars smíðað slík hljóðfæri úr rabarbara og hvönn.
Erindi Eyjólfs var auk þess hið fróðlegasta, en upptaka af því er aðgengileg á YouTube og má nálgast upptökuna með því að smella hér.