Skip to main content

admin

Þrjár sýningar opna í Safnahúsinu

Það sem af er þessum mánuði hafa þrjár nýjar sýningar opnað á vegum safnanna í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Í dag, föstudaginn 11. mars, opnar ljósmyndasýning á jarðhæð Safnahússins. Alls eru 15 myndir á sýningunni og eru þær allar teknar á Austurlandi, flestar á 10. áratug 20. aldar. Myndirnar koma úr safnkosti Ljósmyndasafns Austurlands en þær eru verk tveggja ljósmyndara, þeirra Önnu Ingólfsdóttur og Sigurðar Aðalsteinssonar sem bæði hafa starfað sem fréttaritarar á Austurlandi. Myndefnið er fjölbreytt enda austfirskt mannlíf þema sýningarinnar. Sýningin verður opin fram í apríl og er aðgangur ókeypis.

Frá því í upphafi febrúar á þessu ári hefur á vegum Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Ljósmyndasafns Austurlands verið unnið að verkefni við skönnun, skráningu og frágang ljósmynda. Verkefnið hlaut styrk á fjárlögum yfirstandandi árs en sveitarfélagið Fljótsdalshérað kemur einnig að því með söfnunum. Alls starfa þrír starfsmenn við verkefnið sem mun verða framhaldið til loka þessa árs. Myndirnar á sýningunni sem opnar í dag er meðal þess myndefnis sem unnið hefur verið með á fyrsta mánuði verkefnisins. Meginmarkmið þess er að gera safnkost Ljósmyndasafns Austurlands aðgengilegri fyrir áhugasama og er gert ráð fyrir að síðar verði einhver hluti safnsins gerður aðgengilegur á veraldarvefnum. Sá áfangi verkefnisins sem nú er í gangi nær þó ekki til slíkrar birtingar. 

Samhliða sýningunni á jarðhæð Safnahússins opnar önnur ljósmyndasýning á vef Héraðsskjalasafns Austfirðinga (má nálgast undir flipanum Myndir hér á siðunni.). Myndirnar sem þar birtast eru alls 20 talsins og koma þær úr safni Sigurðar Blöndal á Hallormsstað. Efni myndanna er fjölbreytt en þar gefur m.a. að líta myndir frá Héraðsvökum og úr starfi Skógræktar ríksins. Flestar eru myndirnar teknar á Fljótsdalshéraði og er meginhluti þeirra tekin á 8. áratug 20. aldar.

Þriðja sýningin opnaði  í Safnahúsinu fyrr í þessum mánuði. Bókasafn Héraðsbúa hefur sett upp sýningu um Einar H. Kvaran rithöfund. Einar var fæddur í Vallanesi á Völlum þann 6. desember 1859 og var einn af brautryðjendum raunsæisstefnu í íslenskum bókmenntum. Hann skrifaði skáldsögur, smásögur, ljóð og leikrit og má þar þekktast nefna Lénharð fógeta. Þessi sýning var fyrst sett upp í Þjóðarbókhlöðunni í desember 2009 í tilefni af því að að 150 ár voru liðin frá fæðingu Einars. Sýninguna má skoða í stiganum á leiðinni upp á bókasafn og rit hans liggja einnig þar frammi.

Nánar má fræðast um sýninguna um Einar Kvaran á vef Fljótsdalshéraðs (www.fljotsdalsherad.is)