Bókavaka, Jólagleði fjölskyldunnar o.fl
Nú eru nýlega afstaðnir tveir af árlegum liðum í starfi Safnahússins - Jólagleði fjölskyldunnar og Bókavakan. Ný myndasýning mun svo birtast hér á heimasíðu safnsins í næstu viku en í anda jólanna mun þar verða lögð áhersla á fjölskyldumyndir frá ýmsum tímum. Sé klikkað á fyrirsögn þessarar fréttar má fræðast nánar um Jólagleðina og Bókavökuna.
Laugardaginn 27. nóvember var hin árlega Jólagleði fjölskyldunnar í Safnahúsinu. Dagskrá Jólagleðinnar var fjölbreytta að vanda en boðið var m.a. upp á jólaföndur, söng og dans auk þess sem gestur úr fjöllunum kíkti í heimsókn. Að vanda var aðsókn góð en um 100 manns sóttu þennan viðburð. Að venju bar Minjasafnið hitann og þungann af Jólagleðinni en öll söfnin tóku þó þátt í henni.
Fimmtudagskvöldið 2. desember var hin árlega Bókavaka Safnahússins á Egilsstöðum haldin, en að henni standa Bókasafn Héraðsbúa, Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Þetta er í þriðja sinn sem Bókavakan er haldin frá því að þessi viðburður var endurreistur árið 2008. Frá þeim tíma hefur áherslan verið lögð á austfirska útgáfu en yfirskrift Bókavökunnar hefur verið „Austfirsk útgáfa í öndvegi“. Jafnan hefur verið af nægu að taka í þeim efnum þó austfirskar bækur séu ekki alltaf áberandi í jólabókaflóðinu. Kynnir á bókavökunni í ár var Jóhanna Hafliðadóttir, sem á nýliðnu sumri tók við sem forstöðukona Bókasafns Héraðsbúa.
Í ár var efnisskrá Bókavökunnar fjölbreytt að vanda og voru sex bækur kynntar sérstaklega. Kristrún Jónsdóttir, fyrrverandi forstöðukona Bókasafns Héraðsbúa, fjallaði um bókina Það reddast en hún hefur að geyma æviminningar Sveins Sigurbjarnarsonar skráðar af Ingu Rósu Þórðardóttur. Helgi Hallgrímsson sagði frá Sveppabókinni sem er gríðarlega merkilegt rit sem byggt er á áratugalöngum rannsóknum höfundar. Hafdís Bogadóttir las úr bók Más Karlssonar Fólkið í plássinu sem hefur að geyma fjölbreyttar frásagnir af fólki og atburðum á Djúpavogi og nágrenni. Þrjár ljóðabækur voru einnig til umfjöllunar. Aðalsteinn Aðalsteinsson las úr Fjallaþyt sem hefur að geyma úrval ljóða Hákonar Aðalsteinssonar. Að endingu kynnti Magnús Stefánsson tvær bækur sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gefur út í ár. Annars vegar ljóðabókina Jörðin kallar á börnin sín eftir Sigurjón Jónsson frá Snæhvammi í Breiðdal og hins vegar aðra útgáfu af ljóðabókinni Austan um land eftir Sigurð Óskar Pálsson, fyrrverandi forstöðumann Héraðsskjalasafns Austfirðinga, en sú bók hefur lengi verið ófáanleg.
Þó aðeins hafi gefist rúm til að fjalla sérstaklega nokkrar þeirra austfirsku bóka sem komu út á árinu hefur sá siður viðhaldist á Bókavökum Safnahússins að kynna stuttlega aðrar austfirskar bækur sem út komu á árinu. Alls komu út á árinu vel á annan tug bóka sem kalla má austfirskar en það er svipaður fjöldi og undanfarin ár. Um 30 gestir sóttu Bókavökuna.