Skip to main content

admin

Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1976-2016

Ágrip af 40 ára sögu

Í bókinni Samstarf á Austurlandi eftir Smára Geirsson er að finna stuttan undirkafla sem heitir „Héraðsskjalasafn“. Þar greinir Smári frá umæðu sem skapaðist innan Fjórðungsþings Austfirðinga á árunum í kringum 1950 um stofnun héraðsskjalasafns fyrir Austurland.  

Áhugumenn um stofnun skjalasafns litu m.a. til þess að fá mætti húsnæði á Skriðuklaustri undir starfsemina, en í gjafabréfi Gunnars og Franzisku til íslenska ríkisins voru tilmæli um að Skriðuklaustur skyldi nýtt til menningarauka fyrir svæðið og er starfsemi skjalasafns eitt af því sem talið er upp sem möguleiki. Málið var tekið upp á Fjórðungsþingi árið 1949, en þar lá fyrir erindi frá Norður-Múlasýslu þess efnis að þingið hefði forgöngu um að stofnað yrði héraðsskjalasafn fyrir Austurland. Skipuð var þriggja manna nefnd til að vinna málið áfram. Héraðsskjalasafnsnefndin skilaði af sér á Fjórðungsþingi árið 1951 og lagði til að þingið leitaði eftir áhuga, fyrir stofnun skjalasafns fyrir Austurland, hjá sýslunefndum og bæjarstjórnum sem aðild ættu að Fjórðungsþinginu.

Smári segir í bókinni að eftir þetta hafi ekkert frekar verið fjallað um stofnun héraðsskjalasafns á vettvangi Fjórðungsþingsins. Má af því draga þá ályktun að ekki hafi verið fyrir hendi nægt fjármagn eða áhugi á málinu til að raunhæft væri að ráðast í verkefnið.

Um og uppúr 1970 kemst aukin hreyfing á þróun safnastarfs á Austurlandi. Þar á meðal kemst aftur af stað umræða stofnsetning héraðsskjalasafns. Sumarið 1971 sendi Hjörleifur Guttormsson erindi til stjórnar SSA þar sem hann ræddi hugmyndir sínar um uppbyggingu og skipulag safnamála í fjórðungnum. Hjörleifur hafði áður komið að stofnun Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað, en það efndi til sinnar fyrstu sýningar árið 1970. Erindi Hjörleifs kom til umræðu á aðalfundi SSA haustið 1971. Þar var safnanefnd SSA skipuð til að vinna málið áfram. Nefndin skilaði tillögum og greinargerð til aðalfundar SSA árið 1972. Þar urðu miklar umræður um tillögur safnanefndarinnar og voru undirtektir almennt góðar. Niðurstaðan varð að stofna Safnastofnun Austurlands (SAL) og var henni skipuð fimm manna stjórn með Hjörleif Guttormsson sem formann.

Stofnun héraðsskjalasafns komst um sama leiti einnig til umræðu á vettvangi sýslanna. Árið 1970 kaus sýslunefnd Suður-Múlasýslu þriggja manna nefnd sem hafði það hlutverk að undirbúa með hvaða hætti sýslan myndi minnast 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974. Brátt komu Norðmýlingar og Seyðisfjarðar- og Neskaupstaður, að undirbúningnum. Stofnun Héraðsskjalasafns á Austurlandi kom þar fljótlega til umræðu. Árið 1971 var tillaga þess efnis lögð fyrir sýslunefnd Suður-Múlasýslu. Tillögunni var vel tekið og var hún samþykkt. Hún hljóðaði svo:
Sýslunefnd Suður-Múlasýslu samþykkir að minnast ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar með framkvæmd er hafi menningarlegt framtíðargildi. Því samþykkir sýslunefndin að stofna héraðsskjalasafn á Austurlandi og ennfremur að leita samstarfs um það mál við önnur lögsagnarumdæmi í hinu forna Múlaþingi. (Ármann Halldórsson, Saga sýslunefndar Suður-Múlasýslu 1875-1988, s. 242.)

Eignaraðilar skyldu tryggja rekstur safnsins sem skyldi starfa samkvæmt gildandi lögum og reglugerð um héraðsskjalasöfn. Samþykkt var að staðsetja safnið á Egilsstöðum og kaupa þar húsnæði fyrir það. Einnig skyldi leita bindandi samkomulags við önnur lögsagnarumdæmi um aðkomu að stofnun safnsins. Sýslunefnd hafði strax árið 1971 augastað að húsi Pósts og síma að Fagradalsbraut 2 á Egilsstöðum undir starfsemina. Árið 1972 gerðist Norður-Múlasýsla aðili að væntanlegu héraðsskjalasafni en kaupstaðirnir neituðu þátttöku. Íbúar þeirra fengu engu að síður afgreiðslu hjá safninu eftir stofnun þess og til safnsins bárust skjöl frá kaupstöðunum, þó þeir væru ekki aðilar að safninu fyrstu árin. Sýslurnar festu svo kaup á gamla pósthúsið undir starfsemina.
Varð nú nokkurt hlé á málinu til ársins 1974.

Í erindi á umræðufundi Menningarsamtaka Héraðsbúa, þann 24. apríl 1974 (sem síðar birtist í greinarformi í byggðasöguritinu Múlaþingi) ræddi Hjörleifur Guttormsson um stöðu safnamála á Austurlandi. Tilefni erindisins var áhugi á að gera átak í menningarmálum, einkum safnamálum, í tengslum við 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Hjörleifur ræddi stöðu safnastarfs í landinu, út frá þremur gerðum safna: bókasafna, skjalasafna og minjasafna. Hann taldi áhugaleysi ríkisvaldsins á safnamálum og fjárskort í málaflokknum standa vexti hans og þróun fyrir þrifum. Utan Reykjavíkur hafi verið treyst á framtak áhugamanna í þessum efnum og lítinn stuðning verið að fá – hvorki faglegan né fjárhagslegan.

Í erindinu dró Hjörleifur upp dökka mynd af stöðu safnastarfs á Austurlandi. Væru bókasöfnin frátalin stæði Austurland öðrum fjórðungum að baki. Áður en Safnastofnun Austurlands (SAL) var stofnað árið 1971 hafi einungis tvö söfn verið í fjórðungnum, sem héldu út sýningum sem opnar voru einhvern hluta ársins, Minjasafnið á Bustarfelli og Náttúrugripasafnið í Neskaupstað. Minjasafn Austurlands væri enn geymt í litlu herbergi á Skriðuklaustri.

Þegar Hjörleifur flutti erindið í apríl 1974 var á ný komin hreyfing á stofnun héraðsskjalasafns og nefnir hann þá ákvörðun Múlasýslna að sameinast um að kaupa gömlu símstöðina á Egilsstöðum undir starfsemi væntanlegs héraðsskjalasafns. Stjórn SAL hafi einnig hvatt til þess að kaupstaðirnir í Múlasýslum og Austur-Skaftafellssýslu yrðu líka með og jafnframt hvatt sýslunefndirnar til að koma starfseminni af stað sem fyrst og ráða forstöðumann. Í erindinu segir Hjörleifur:
Fátt er jafn brýnt og að hefjast handa um skipulega söfnun á skjölum, bréfum og handritum af ýmsu tagi hér austanlands, því að árlega verður mikið af slíku efni eyðingu að bráð með ýmsum hætti. Fyrr en varir mun ýmiskonar fræðastarfsemi tengjast þessari stofnun, þannig að að henni verður margháttaður menningarauki.
    ...
Uppbygging safna og viðgangur er eljuverk sem krefst fjármagns, natni og þekkingar og glöggrar áætlunar um, að hverju er stefnt með hverju safni. Með öðrum orðum þarf að skilgreina verkefni hvers safns og haga söfnun í þeirra þágu og sýningum sem mest í samræmi við það. (Hjörleifur Guttormsson, „Safnamál á Austurlandi“, Múlaþing 8 (1975), s. 27 og 32.)

Með þessum orðum rammar Hjörleifur inn þá sýn að safnastarf á Austurlandi eigi að byggja upp í formi sérhæfðra og ólíkra safna með skýra verkaskiptingu, en ekki sem smáar einingar í hverju byggðalagi sem reyni að teygja sig yfir mörg svið. Fyrr í erindinu hafði hann bent á að kenna mætti strjálbýli, erfiðum samgöngum og innbyrðis togstreitu í fjórðungnum um að safnamál hafi ekki þróast þar sem skyldi.

Fyrr á árinu 1974 átti sér stað atburður sem varð til að þrýsta enn frekar á að ráðist yrði í stofnun héraðsskjalasafns á Austurlandi. Þeim atburði lýsir Ármann Halldórsson, fyrsti forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga, í grein í Múlaþingi árið 1977. Hann segir:
Skjala- og bókasafn fyrir Múlasýslur var stofnað á Egilsstöðum 17. apríl sl., laugardaginn fyrir páska. ...
Eins og oft vill verða dróst nokkuð, að til [...] framkvæmda drægi, og leið svo fram yfir 1974. Á þeim tíma gerðist það, að Anna Guðný Guðmundsdóttir, ekkja Halldórs Ásgrímssonar fyrrverandi alþingismanns, gaf hinu fyrirhugaða safni allan bókakost þeirra hjóna, um 5000 bindi, með gjafabréfi dagsettu 17. apríl 1974. Halldór Ásgrímsson andaðist að heimili sínu í Reykjavík þann 1. desember 1973, og höfðu þau hjónin áður ákveðið að gefa bókasafnið til Austurlands, en ekki búin að ráðstafa því nánar. Kom því í hlut Önnu og sona þeirra hjónanna að ákveða það, og völdu þau skjalasafnið sem viðtakanda. (Ármann Halldórsson, „Héraðsskjalasafn Múlasýslna komið í höfn ...“, Múlaþing 9 (1977), s. 4.)

Gjafabréfið barst sýslufundi Suður-Múlasýslu árið 1974. Um viðtökurnar er bókað að sýslunefnd þættu skilyrðin ekki sem aðgengilegust en á hinn bóginn væri útilokað að hafna gjöfinni. Sýslunefnd bókaði þakkir fyrir gjöfina og skipaði þriggja manna nefnd til að annast móttöku hennar og gera nánara samkomulag um hana. Árið 1975 skipaði sýslunefnd Suður-Múlasýslu svo tvo menn í stjórn væntanlegs héraðsskjalasafns en Norður-Múlasýsla skipaði þann þriðja. Suður-Múlasýsla kostaði þá rekstur safnsins að 2/3 en Norður-Múlasýsla að 1/3, sem skýrir samsetningu stjórnarinnar. Hlutverk safnstjórnar var víðtækt til að byrja með. Ármann Halldórsson lýsir því svo:
Safnstjórn skyldi sjálf kjósa formann, ráða safnvörð, taka við bókagjöfinni og ganga frá skilyrðum hennar vegna, annast viðhald og rekstur safnhússins og safnsins, ráða mann til að safna skjölum, hafa samband við þjóðskjalavörð eftir því sem við ætti, og standa skil á reikningum safnsins, starfsskýrslu og gera fjárhagsáætlun. (Ármann Halldórsson, Saga sýslunefndar Suður-Múlasýslu 1875-1988, s. 244.)

Jón Kristjánsson, síðar alþingismaður og ráðherra, var kjörinn formaður fyrstu stjórnar Héraðsskjalasafnsins, en auk hans sátu í stjórninni Helgi Gíslason og Ragnar Magnússon. Ármann Halldórsson var ráðinn safnvörður frá 1976. Safnið var formlega stofnað 17. apríl 1976, á áttræðisafmæli Halldórs Ásgrímssonar, að viðstöddum gestum m.a. Vilhjálmi Hjálmarssyni þáverandi menntamálaráðherra. Sérstök stjórn var kosinn yfir bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Í hana voru skipaðir tveir stjórnarmenn safnsins Jón Kristjánsson og Helgi Gíslason auk Árna Halldórssonar, fulltrúa gefenda.

Árið 1976 stóð Safnastofnun Austurlands fyrir þjóðminjasýningu. Einn megintilgangur þeirrar sýningar var að skapa velvild í garð minjasöfnunar og vinna gegn tortryggni í garð Minjasafns Austurlands, sem þá var enn á hrakhólum með húsnæði. Þetta framtak hefur vafalítið nýst Héraðsskjalasafninu þó í starfsskýrslum safnsins komi fram að fyrstu árin hafi gætt ákveðinnar tortryggni gagnvart safninu þegar kom að afhendingu skjala til þess. Mikil vinna var lögð í söfnun skjala og fóru Eiríkur Eiríksson og Helgi Gíslason fremstir í flokki við þá vinnu. Árið 1979 afhenti Þjóðskjalasafn Íslands skjöl til Héraðsskjalasafnsins og síðar átti meira af austfirskum skjölum eftir að berast til þess frá Þjóðskjalasafni.

En þó safnið væri formlega stofnað, forstöðumaður ráðinn og kominn til starfa og stjórn skipuð, var enn margt ógert áður en að það kæmi til almennra nota. Skráning bóka og skjala var skammt á veg kominn og mikil vinna var eftir við frágang og innréttingar í húsinu auk þess sem enn skorti húsbúnað fyrir lesstofu safnsins. Starfsemi safnsins fyrsta árið einkenndist mjög af þessu. Safnið var opnað til almennra nota þann 15. október 1977 og var fyrst um sinn opið tvo daga í viku alls í 8 stundir.

Hrafnkell Lárusson,
sagnfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga


Hluti erindis sem flutt var í afmælishófi eftir aðalfund Héraðsskjalasafnsins sem fram fór í Neskaupstað 3. nóv. 2016. Samnefnd grein, mun ítarlegri en þessi pistill, mun birtast í byggðasöguritinu Múlaþingi.

  • Ritað .