Skip to main content

admin

Kort um Eirík frá Dagverðargerði

Frá árinu 1978 hefur Héraðsskjalasafnið gefið út jóla- eða áramótakort. Kort ársins 2018 er tileinkað Eiríki Eiríkssyni frá Dagverðargerði.

Eiríkur Björgvin Eiríksson (1928-2007)

Eiríkur EiríkssonEiríkur Björgvin Eiríksson fæddist í Dagverðargerði í Tunguhreppi, 16. desember 1928. Hann var yngstur fjögurra systkina en tvö komust til fullorðinsára. Foreldrar Eiríks voru Anna Gunnarsdóttir húsfreyja og Eiríkur Sigfússon bóndi í Dagverðargerði.

Eiríkur ólst upp hjá foreldrum sínum í Dagverðargerði, oft við frekar þröngan kost. Námsgáfur hans og gott minni komu snemma í ljós en skólagangan varð ekki löng. Hann stundaði nám við Alþýðuskólann á Eiðum í tvo vetur og má segja að upp frá því hafi hugur hans hneigst til bóka og fræðistarfa af mikilli ástríðu. Ekki varð um frekari skólagöngu að ræða þar sem heilsuleysi föður hans varð til þess að Eiríkur fór að vinna við bú foreldra sinna og þegar faðir hans lést 1957 gerðist hann fyrirvinna heimilisins.

Eiríkur þoldi illa bústörfin og hætti búskap 1967. Hann átti áfram heimili í Dagverðargerði ásamt Málfríði systur sinni og móður þeirra og sinnti ýmsum tilfallandi verkamanns- og ritstörfum næstu árin.

Sumarið 1975 vann Eiríkur hjá Skjalasafni Austfirðinga og ferðaðist um svæðið norðan Smjörvatnsheiðar, Héraðshreppa og Seyðisfjörð. Skráði hann öll gögn sem hann fékk vitneskju um og hugsanlega yrðu varðveitt á safninu sem var verið að koma á fót.

Haustið 1975 hélt Eiríkur til Reykjavíkur og gerðist bókavörður hjá Alþingi. Þeim starfa hélt hann fram til ársins 1995 er hann hætti fyrir aldurs sakir. Eiríkur reyndist bókasafni Alþingis hinn nýtasti starfskraftur.

Eiríkur var nafntogaður hagyrðingur, einstaklega bókfróður og vel að sér um sagnfræði og bókmenntir, gat sér m.a. gott orð fyrir frammistöðu í spurningakeppni í sjónvarpi árið 1972. Hann var vel að sér í byggðarsögu Austurlands. Hann starfaði við útgáfu á ritinu „Sveitir og jarðir í Múlaþingi“ um alllangt skeið og ritaði ábúendatal, fjölda jarðalýsinga og tvær sveitarlýsingar. Ferðaðist hann um sveitirnar og aflaði heimilda í kirkjubókum, hreppsbókum og víðar.

Þá vann Eiríkur örnefnaskrá fyrir Hróarstungu og fleiri hreppa á Héraði. Hann var höfundur að mörgum tímaritsgreinum og útvarpsþáttum um austfirskan fróðleik af ýmsu tagi. Mesta verk sem eftir hann liggur er hin ítarlega skrá yfir mannanöfn, drauga, vættir og staði við seinni útgáfu á þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar er kom út á árunum 1980-1985.

Eiríkur var ókvæntur og barnlaus. Hann lést á elliheimilinu Grund 25. ágúst 2007.

Eiríkur með kerruhest í vegagerð 1942Eiríkur með kerruhest í vegagerð árið 1942.

  • Ritað .