Skip to main content

admin

Kort um Jóhann Magnús Bjarnason

Áramótakort sem var gefið út í desember 2019 er tileinkað skáldinu og kennaranum Jóhanni Magnúsi Bjarnasyni.

Jóhann Magnús Bjarnason (1875-1945)


Skáldið Jóhann Magnús Bjarnason fæddist í Meðalnesi í Fellum 24. maí 1866. Voru foreldrar hans Kristbjörg Magnúsdóttir og Bjarni Andrésson bæði ættuð af Héraði. Fjölskyldan flutti síðar að Setbergi í sömu sveit og þaðan að Fljótsbakka í Eiðaþinghá. Hjónin eignuðust sex börn en fjögur dóu ung.  Árið 1875 þegar Jóhann var níu ára tók fjölskyldan sig upp og hélt vestur um haf til Kanada í von um betri daga.

Fyrstu árin dvöldust þau í Nova Scotia en settust síðan að í Íslendingabyggð í nágrenni Winnipeg þar sem Jóhann stundaði nám í gagnfræðaskóla. Hann var víðlesinn og það sem kallað er sjálfmenntaður og varð helsta ævistarf hans, þrátt fyrir stutta skólagöngu, barnakennsla víða í Íslendingabyggðum vestanhafs. Jóhann hóf kennslu í Árnesi við Winnipegvatn árið 1889 og kenndi hann allt til ársins 1922 með hléum vegna veikinda. Naut hann vinsælda og velgengni í starfi þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Um svipað leyti hóf hann að hasla sér völl sem rithöfundur og varð fljótlega mikilvirkur á því sviði þrátt fyrir að tími til ritstarfa gæfist honum aðeins í skólafríum á sumrin og þeim fáu tómstundum sem gáfust í önnum vetrarins.

Fyrsta bók Jóhanns Sögur og kvæði kom út í Winnipeg 1892 og fékk hún frekar slæma dóma en höfundurinn lét það ekki á sig fá og hélt ótrauður áfram að skrifa. Segja má að hann hafi fundið fjölina sína þegar hann hóf að skrifa skáldsögur en sú fyrsta Eiríkur Hansson kom út í þremur bindum á árunum 1899-1903. Naut hún strax mikilla vinsælda beggja megin hafsins. Gerðist sagan að miklu leyti á æskustöðvum höfundar í Nova Scotia og hefur að geyma raunsæja lýsingu á lífsbaráttu landnemans og barna hans.

Næsta bók Brasilíufararnir kom út í tveimur bindum á árunum 1905-1908. Þar kveður við annan tón. Söguhetjurnar lenda í ótrúlegum ævintýrum á framandi slóðum og frásagnargleði og hugmyndaauðgi höfundar nýtur sín til fulls. Þriðja langa skáldsagan Í Rauðárdalnum birtist síðan sem framhaldssaga í tímaritinu Syrpu á árunum 1914-1922 en kom síðar út í bókarformi. Segja má að þessar þrjár skáldsögur hafi átt mestan þátt í vinsældum Jóhanns sem einnig sendi frá sér smásagnasöfnin Vornætur á Elgsheiðum og Haustkvöld við hafið. Í sögunum eru Íslendingar oftast í hlutverki aðalsöguhetjunnar, gjarnan göfugmenni eða afreksmenn sem sýnir þann metnað sem höfundurinn hafði fyrir hönd ættþjóðar sinnar. Jóhann samdi einnig leikrit sem tekin voru til sýninga, skrifaði fjölda blaðagreina og sendi frá sér ævintýri og ljóð. Meðal annars barnasöguna Karl litli og söguljóð um reið Árna Oddssonar yfir öræfin sem notið hefur mikilla vinsælda á Íslandi allt fram á þennan dag. Hafa sögurnar Brasilíufararnir og Í Rauðárdalnum verið lesnar sem framhaldssögur í Ríkisútvarpinu.

Kona Jóhanns var Guðrún Hjörleifsdóttir ættuð úr Vestur-Skaftafelssýslu. Þau hjónin eignuðust ekki börn en fósturdóttir þeirra var Alice Juliet Cooper. Þau bjuggu síðustu árin í Elfros í Saskatchewan þar sem þau létust með mánaðar millibili sumarið 1945. Jóhann var alla tíð fátækur og heilsulítill og auðnaðist ekki að heimsækja æskustöðvarnar á Íslandi sem alla tíð voru honum hugstæðar. Á lágum hól í landi Meðalness hafa aðdáendur reist skáldinu minnisvarða, ekki langt frá þeim stað þar sem Jóhann átti sín fyrstu spor í grænum hlaðvarpa.

Minnisvarði                   Bréf
Minnisvarðinn í Fellum.
  Úr bréfi frá Jóhanni.

 

Frá árinu 1978 hefur Héraðsskjalasafnið gefið út jóla- eða áramótakort. Hægt er að skoða önnur jóla- og áramótakort á þessari vefsíðu.

 

  • Ritað .