Skip to main content

admin

Stjórnarfundur 22.6. 2004

Fundur í stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga haldinn á Hótel Héraði 22. júní 2004.

Formaður Björn Aðalsteinsson setti fundinn og stjórnaði honum.


1.      Ársreikningur 2003

Héraðsskjalavörður kynnti reikninginn og skýrði einstaka liði. Rekstrarhagnaður fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld nam kr. 1.106.743, en þegar tekið er tillit til þeirra var hagnaður kr. 1.069.564. Allir stjórnarmenn lýstu ánægju sinni með niðurstöðuna og það að fjárhagsáætlun var haldin. Reikningurinn var samþykktur með öllum atkvæðum. Stjórnarmenn árituðu síðan reikninginn.


2.      Tryggingaryfirlýsing

Stjórnarmenn undirrituðu yfirlýsingu þar sem forstöðumanni var heimilað að framlengja yfirdrátt allt að einni milljón króna hjá KB-banka á Egilsstöðum. Heimildin gildir til 22. júní 2005.


3.      Stefnumótunarvinna

Hrafnkell sagði frá hugmyndum og umræðum starfsmanna í húsinu um aukið samstarf safnanna. Málið var rætt og með tillögu Ólafs Eggertssonar var héraðsskjalaverði falið að skila skýrslu um það á fulltrúaráðsfundi í haust.


4.-6.         Gjöf Landsbankans, ráðning starfsmanna, gjöf barna Þórarins og Sigrúnar

Hrafnkell skjalavörður skýrði frá því að Landsbankinn hefði gefið eina milljón króna sem verður notuð til að skrá ljósmyndasafn Austra og einnig safn Einars Vilhjálmssonar. Hrafnkell Freyr Lárusson sagnfræðingur hefur verið ráðinn sem sumarmaður í þessu skyni. Þá skýrði Hrafnkell frá því að ekkja og börn Þórarins Þórarinssonar fyrrum skólastjóra á Eiðum hafi gefið héraðsskjalasafninu og minjasafninu kr. 300.000. Féð skal nýta til að skrá og varðveita muni, skjöl og önnur gögn frá Eiðaskóla. Þá hefur Hrafnkell ráðið Guðgeir Ingvarsson um eins mánaðar skeið sem starfsmann í sumar.


7.    Undirbúningur að fjárhagsáætlun

Samþykkt var að formaður vinni að fjárhagsáætlun með héraðsskjalaverði. Hrafnkell lagði fram tillögur að launabreytingum fastra starfsmanna og greinargerð með þeim. Birni Aðalsteinssyni og Magnúsi Stefánssyni var falið að vinna úr þessum tillögum og skila áliti á næsta stjórnarfundi. Hrafnkell yfirgaf fundinn meðan málið var rætt.


8.    Önnur mál

a) Hrafnkell lagði fram deiliskipulag lóðarinnar Skógarlönd 3 – Valaskjálf. Ákveðið hefur verið að byggja hótel á lóðinni og það þrengir að bílastæðum safnahússins.

b) Hrafnkell sagði að Sölvi Aðalbjarnarson hefði beðið um að fá að setja upp listaverk sín á lóð safnsins. Stjórnin samþykkti það.

c) Hrafnkell lagði fram samning milli Húsfélagsins Laufskógum 1 og Austur-Héraðs um rekstur og viðhald safnahússins á Egilsstöðum sem samþykktur var á síðasta fulltrúaráðsfundi. Var Hrafnkatli falið að undirrita hann.

d) Ólafur Eggertsson bauð til næsta fulltrúaráðsfundar heima hjá sér að Berunesi í Berufirði. Var boðið þegið – fundurinn verður haldinn í haust.


Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 18:40.


Magnús Stefánsson [sign]

Hrafnkell A. Jónsson [sign]

Ólafur Valgeirsson [sign]                  

Björn Aðalsteinsson [sign]