Skip to main content

admin

Stjórnarfundur 18.10. 2007

Fundargerð frá fundi í stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga 18. okt. 2007.

Stjórn kemur saman til fundar í Héraðsskjalasafninu kl. 15.00.


Mættir eru: Björn Aðalsteinsson, Magnús Stefánsson, Ólafur Eggertsson, Ólafur B. Valgeirsson og Sigmar Ingason.

Formaður setti fundinn. Í upphafi var fundargerð síðasta fundar lesin og samþykkt.

1. mál: Ráðning forstöðumanns.
Björn greindi frá bréfaskriftum umsækjenda sem óskuðu skýringa og rökstuðnings fyrir ákvörðun um ráðningu forstöðumanns. Samið var uppkast svarbréfs sem formaður klári og sendi innan viku.
Rætt um uppkast starfssamnings við Hrafnkel Lárusson og gerðar minniháttar breytingar. Hann síðan samþykktur og formanni falið að undirrita.

2. mál: Fjárhagsáætlun.
Samþykkt var að starfshlutfall Guðgeirs Ingvarssonar upp á 75% starf verði óbreytt næsta ár, en honum tryggt 100% starf komandi ár.

Næst voru drög að fjárhagsáætlun tekin til umræðu. Meginaðferð við gerð hennar var að gera ráð fyrir 4% hækkun á milli ára, en fáeinir liðir voru í ljósi reynslunnar hækkaðir meira. Eftir ýtarlega yfirferð og skoðun var sættst á að áætlunin geri ráð fyrir tapi upp á 115.000. Niðurstöðutölur voru að tekjur yrðu 19.552.000 kr og gjald megin 19.666 kr. Þannig breytt var áætlunin samþykkt samhljóða.

3. mál: Önnur mál.
Undir liðnum önnur mál kvaddi Magnús Stefánsson sér hljóðs og benti stjórninni á að formaður stjórnar hefði haft mikið að gera á árinu og þurft að fara margar ferðir neðan af Borgarfirði í Egilsstaði vegna þeirrar stöðu sem mál safnsins hefðu verið í þar sem vantað hefði forstöðumann. Einnig hefðu þeir átt nokkra fundi, hann og formaður til að sinna verkum sem annars hefðu verið í verkahring forstöðumanns.
Varð niðurstaðan sú að safnið greiddi formanni stjórnar bifreiðastyrk vegna 10 ferða og varaformanni vegna 6 ferða.

Þá kynnti formaður bréf frá vinnueftirlitinu þar sem tíndir voru til ýmsir annmarkar á safnahúsinu og er það nú rekið á undanþágu sem mun fást endurnýjuð meðan að unnið er að úrbótum. Hér er helst um að ræða vankanta á aðbúnaði starfsfólks og verður unnið áfram að úrbótum.

Magnús Stefánsson benti á að Langanesbyggð væri inni í stofnsamningi byggðasamlagsins vegna Skeggjastaðahrepps sem nú væri horfinn úr samlaginu. Kom fundarmönnum saman um að rétt væri að fella þetta út án þess að senda stofnsamninginn á rúntinn milli aðila til endursamþykktar.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 17.35.

Ólafur Eggertsson, fundarritari.