Skip to main content

admin

Bókavaka í safnahúsi

Austfirsk útgáfa verður í öndvegi á bókavöku í safnahúsi sem hefst kl. 17 fimmtudaginn 5. desember. Nokkur ljóðskáld mæta og lesa úr bókum sínum en aðrir lesarar sjá um þá sem sjá sér ekki fært að mæta.

Útgáfa ársins er gróskumikil, að minnsta kosti sjö ljóðskáld hafa sent frá sér nýja ljóðabók. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur gefið út bók um íslenska bragfræði. Þá er komð út ritsafn með verkum Erlu, Guðfinnu Þorsteinsdóttur á vegum Félags ljóðaunnenda á Austurlandi, Jón Kristjánsson hefur sent frá sér 100 ára sögu Kaupfélags Héraðsbúa, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir þýðingu á öðru bindi af óstyttri sögunni um Önnu í Grænuhlíð og Ingunn V. Sigmarsdóttir hefur gefið út gráglettna sögu um íbúa og starfsfólk á elliheimili.

Hallveig Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson hafa bæði sent frá sér bækur með endurminningabrotum og loks er komið út ritið Skriðdæla, sem hefur m.a. að geyma ábúendatal, sveitarlýsingar, örnefni og sögur af mönnum og málefnum fram til ársins 1990. Nokkur ljóðskáld mæta og lesa sjálf úr bókum sínum en aðrir lesarar sjá um þá sem lengra eru að komnir eða sáu sér ekki fært að mæta.

Kynnir er Arndís Þorvaldsdóttir.

Aðgangur ókeypis, kaffi á könnunni og allir velkomnir.