Skip to main content

admin

Aðalfundur 2018

Á aðalfundi Héraðsskjalasafnsins var fjallað um ársskýrslu 2017, ársreikning 2017 og fjárhagsáætlun 2019. Fundurinn var 19. nóvember.

Aðalfundur 19. nóvember
Ólafur Valgeirsson formaður flutti skýrslu stjórnar en auk hans eru Ragnhildur Rós Indriðadóttir og Björn Hafþór Guðmundsson í stjórn. Bára Stefánsdóttir forstöðumaður fór yfir ársskýrslu fyrir árið 2017 og ársreikning fyrir sama ár. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019, sem var fyrst send til sveitarfélaga 14. maí, var gert ráð fyrir að bæta við starfsmanni í 1 stöðugildi. Í ljósi ábendinga um að Fljótsdalshérað muni ekki samþykkja framlagða beiðni voru til samanburðar lagðar fram tölur þar sem gert var ráð fyrir viðbótarstarfsmanni í hálft stöðugildi. Fljótsdalshreppur var eina sveitarfélagið sem hafði svarað fjárhagsáætlun formlega. Fulltrúar annarra sveitarfélaga á fundinum höfðu ekki umboð til að afgreiða áætlunina. Fjárhagsáætlun var því vísað til framhaldsaðalfundar í desember.

Framhaldsaðalfundur 14. desember
Á milli funda kom í ljós að Fljótsdalshérað var tilbúið til að auka framlög sem samsvaraði hálfu stöðugildi til viðbótar á safninu eða hækkun um 2,6 millj. kr. milli ára. Fjarðabyggð sá sér ekki fært að hækka framlag nema um 5% milli ára. Hin sveitarfélögin voru tilbúin til að hækka framlög annað hvort í samræmi við óskir stjórnar og forstöðumanns eða hækkun í samræmi við Fljótsdalshérað. Afstaða Fjarðabyggðar voru því mikil vonbrigði enda hamlar mannekla starfsemi Héraðsskjalasafnsins. Starfsfólk hefur ekki undan við að skrá innkomin gögn og ný Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 hafa aukið álag á safninu svo um munar. Skilaskyldir aðilar, svo sem sveitarfélög og skólar, hafa leitað ráða hjá héraðsskjalaverði um öryggi og geymslu skjala. Auk þess hefur verið aðstoðað við gerð skjalavistunaráætlana og málalykla sem eru grunnur að góðri skjalastjórn og þar með öruggri varðveislu skjala.

Hér má nálgast fundargerð aðalfundar 2018 og fundargerð framhaldsaðalfundar 2018. Einnig ársskýrslu 2017 og fjárhagsáætlun 2019.

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi SSA í september
Eftirtaldir tóku við stjórn safnsins að loknum aðalfundi þess:
Anna Margrét Birgisdóttir fyrir Fjarðabyggð.
Helgi Hjálmar Bragason fyrir Fljótsdalshérað, Fljótsdalshrepp og Borgarfjarðarhrepp.
Þorbjörg Sandholt fyrir Djúpavogshrepp, Vopnafjarðarhrepp og Seyðisfjarðarkaupstað.