Stjórnarfundur 7.3.2014
Stjórnarfundur Héraðsskjalasafns Austfirðinga 7. mars 2014
Fundurinn var símafundur og hófst hann kl. 11.
Mætt voru: Ólafur Valgeirsson, Ragnhildur Rós Indriðadóttir, Pétur Sörensson og Bára Stefánsdóttir. Ólafur stjórnaði fundi og Bára ritaði fundargerð.
Dagskrá:
1. Frumvarp um opinber skjalasöfn
Með bréfi frá nefndasviði Alþingis dags. 23. janúar 2014 var héraðsskjalasöfnum og fleiri aðilum sent til umsagnar frumvarp til laga um opinber skjalasöfn (þingskjal 403). Forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga sendi inn umsögn þann 20. febrúar.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur ekki fengið frumvarpið til umsagnar. Á fundinum var samþykkt að senda eftirfarandi ályktun til stjórnar SSA og aðildarsveitarfélaga Héraðsskjalasafns:
Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga beinir því til stjórnar SSA að taka til umfjöllunar stjórnarfrumvarp um opinber skjalasöfn sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram á Alþingi þann 18.12.2013. Sjá frumvarpið og feril málsins á vef Alþingis: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=143&mnr=246.
Ennfremur er þess óskað að stjórn SSA taki afstöðu til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um sama frumvarp (dags. 20.2.2014).
Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga tekur undir viðhorf Sambands íslenskra sveitarfélaga til sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga og bendir á mikilvægi þess að SSA og önnur landshlutasamtök komi að umsögn um lagafrumvarp af þessu tagi. Stjórn Héraðsskjalasafns leggur áherslu á skjalastjórn og skjalavörslu sem mikilvæga þætti í góðri stjórnsýslu, réttindum borgaranna og aðgengi þeirra að skjölum um eigin mál í samræmi við Upplýsingalög nr. 59/1996 og Stjórnsýslulög nr. 37/1993.
Gott aðgengi að upplýsingum og skjölum í nærumhverfinu er mikils virði auk þess sem safnið gegnir mikilvægu og vaxandi menningar- og sögulegu hlutverki fyrir fjórðunginn.
2. Tölvubúnaður og lagnir á skjalasafni
Nýr netþjónn er kominn á safnið og unnið er að uppsetningu hans. Tölvulagnir verða lagfærðar í framhaldinu. Keypt verður nýtt fjölnota tæki (ljósritunarvél/prentari/skanni) þar sem gamla ljósritunarvélin virkar ekki í því netumhverfi sem fylgir nýja netþjóninum.
3. Önnur mál
Engin önnur mál komu fram á fundinum.
Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 12:10.
Ólafur B. Valgeirsson [sign]
Ragnhildur Rós Indriðadóttir [sign]
Pétur Sörensson [sign]
Bára Stefánsdóttir [sign]